Pep Guardiola: Það er febrúar og við erum í frábærum málum

Basel tók á móti Manchester City í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld en leiknum lauk með 4-0 sigri gestanna.

Ilkay Gundogan, Bernardo Silva og Sergio Aguero skoruðu fyrir City í fyrri hálfleik og Gundogan var svo aftur á ferðinni í þeim síðari og loaktölur því 4-0 fyrir City.

Pep Guardiola, stjóri City var að vonum sáttur með öruggan sigur sinna manna í kvöld.

„Þetta eru frábær úrslit fyrir okkur og við erum komnir með annan fótinn í 8-liða úrslitin,“ sagði Guardiola.

„Í Meistaradeildinni þá eru leikirnir í útsláttakeppninni 180 mínútur og við munum mæta ákveðnir til leiks í seinni leikinn en þetta voru góð úrslit.“

„Gundogan var frábær í kvöld og við söknuðum hans mikið á síðustu leiktíð. Hann er frábær knattspyrnumaður sem vill alltaf sækja fram á völlinn.“

„Það er ennþá febrúar en við erum í góðum málum, erum á toppi deildarinnar, erum í úrslitum Deildarbikarsins, getum komist í undanúrslit FA-bikarsins um helgina og erum nánast komnir í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar,“ sagði hann að lokum.


desktop