14 heitir bitar sem verða á lausu í haust

Það er aðeins rúmur mánuður eftir af Pepsi-deild karla og félögin sem þar verða að ári eru án nokkurs vafa byrjuð að skoða leikmannamarkaðinn. Ekki gerist það oft á Íslandi að leikmenn séu keyptir og seldir á milli félaga heldur færa menn sig yfirleitt um set þegar samningur þeirra er á enda.

Margir öflugir leikmenn eru án samnings í haust en önnur félög geta ekki byrjað að ræða við þá fyrr en 15. október. Það er þó hins vegar þekkt stærð að félög byrja að koma áhuga sínum áleiðis miklu fyrr og gætu einhverjir leikmenn nú þegar vitað af væntanlegum tilboðum frá öðrum félögum.

Hér í þessari samantekt má lesa um 14 leikmenn sem verða mjög eftirsóttir ef þeir ákveða að róa á önnur mið.

Einar Karl Ingvarsson (Valur)
Miðjumaður

Einar Karl hefur verið frábær í sumar með Val og stimplað sig inn sem einn öflugasti miðjumaður deildarinnar, hann hefur alla tíð haft mikla hæfileika en ekki blómstrað almennilega út fyrr en í sumar. Ekki margt sem bendir til þess að Einar Karl yfirgefi Val nema tilboð að utan berist í kappann.

Daníel Laxdal (Stjarnan)
Varnarmaður

Hr. Stjarnan er nafn sem á vel við Daníel Laxdal og erfitt er að sjá hann fyrir sér í öðru liði á Íslandi. Hann hefur staðið vaktina í vörn liðsins í mörg ár. Þrátt fyrir að vera fæddur árið 1986 er Daníel enn að bæta sig sem leikmaður og verður hann líklega áfram í Garðabænum á næstu árum.

Atli Guðnason (FH)
Sóknarmaður

Hann hefur síðasta áratuginn verið einn jafn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar en nú virðist tankurinn hjá Atla vera að tæmast. Atli, sem er fæddur árið 1984, skoraði aðeins eitt mark fyrir FH í Pepsi-deild karla á síðustu leiktíð og það sem af er sumri hefur hann bara skorað eitt mark í deildinni, það er hins vegar ljóst að Atli yrði eftirsóttur tæki hann þá ákvörðun að yfirgefa uppeldisfélag sitt.

Davíð Þór Viðarsson (FH)
Miðjumaður

Lykilmaður í velgengni FH síðustu ár er Davíð Þór Viðarsson, leiðtogi liðsins, fæddur árið 1984 en hann hefur ekki sýnt merki þess að ferill hans sé á niðurleið. Ljóst er að FH mun leggja mikla áherslu á að halda Davíð í herbúðum félagsins og er afar fátt sem bendir til þess að hann sé á leið annað.

Emil Pálsson (FH)
Miðjumaður

Emil var einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar sumarið 2015 þegar FH varð Íslandsmeistari, en í ár og í fyrra hefur hann ekki náð sama flugi. Emil er kröftugur leikmaður sem er öflugur að koma inn í teiginn og mörg lið gætu hugsað sér að nýta krafta hans fái hann ekki nýjan samning í Kaplakrika. Emil er fæddur árið 1993 og er því á besta aldri.

Kassim Doumbia (FH)
Varnarmaður

Draumurinn frá Malí hefur spilað með FH frá árinu 2014 og átt flotta spretti, ekki eru þó allir sammála um ágæti Doumbia sem á það til að vera villtur á velli. Doumbia hefur samt marga góða kosti sem hafa nýst FH vel í mörg ár, það er hins vegar spurning hvort félagið framlengi samning við hann enda er hann einn af launahæstu leikmönnum deildarinnar.

Andri Rúnar Bjarnason (Grindavík)
Sóknarmaður

Stjarna sumarsins í Pepsi-deildinni er Andri Rúnar Bjarnason. Hann á góða möguleika á að bæta markametið í deildinni og hefur komið öllum á óvart. Ætla má að Grindvíkingar reyni allt sem í þeir valdi stendur til að framlengja samning Andra, hann mun hins vegar vilja skoða möguleika sína í haust. Ekki er ólíklegt að lið í Noregi eða Svíþjóð hafi áhuga og þá er Gróa á Leiti byrjuð að orða Andra Rúnar við FH eftir að félagið seldi Kristján Flóka Finnbogason til Noregs á dögunum.

Óskar Örn Hauksson (KR)
Sóknarmaður

Óskar hefur síðustu tíu árin líklega verið besti leikmaður efstu deildar á Íslandi, sumir ganga svo langt að nefna hann einn besta leikmann í sögu efstu deildar. Óskar er áfram lykilmaður í liði KR og er erfitt að sjá hann yfirgefa Vesturbæinn, það má hins vegar vera ljóst að öll stærstu lið landsins munu bjóða honum samning ef hann er til í að skoða allt. Þá er einnig möguleiki að Grindavík freisti þess að fá Óskar aftur til félagsins en þar hóf hann feril sinn af fullum krafti í deild þeirra bestu.

Tobias Thomsen (KR)
Sóknarmaður

Danski framherjinn hefur sýnt á köflum í sumar að hann er afar öflugur leikmaður, ef svo ber undir. Hann hefur ekki verið alveg nógu stöðugur en líklega mun KR reyna að halda í hann fyrir næstu leiktíð. Tobias er klókur leikmaður sem getur á góðum degi unnið leiki upp á eigin spýtur.

Pálmi Rafn Pálmason (KR)
Miðjumaður

Dvöl Pálma í KR hefur verið misjöfn, hann hefur stigið upp á stórum augnablikum en oft og tíðum hefur hann ekki staðið undir væntingum. Hann er að klára sitt þriðja ár í Vesturbænum, fyrsta árið var slakt en síðan hefur verið uppgangur í spilamennsku hans. Margir telja að Pálmi gæti haldið til Akureyrar og spilað fyrir KA en hann hafnaði góðu tilboði frá KA þegar hann kom heim úr atvinnumennsku og ákvað hann þá að fara í KR.

Geoffrey Castillion (Víkingur)
Sóknarmaður
Ef hollenski framherjinn hefði ekki meiðst á tímabilinu eru allar líkur á að Víkingur væri að berjast ofar í töflunni. Eftir að hann náði fullum styrk hefur Castillion reynst Víkingum afar öflugur. Sterkur og snöggur með auga fyrir marki, stærri lið hér heima gætu reynt að semja við Castillion í haust.

Martin Lund Pedersen (Breiðablik)
Sóknarmaður
Tímabilið í ár hefur ekki verið gott fyrir Martin Lund eins og flesta aðra sem spila í grænu treyjunni í Kópavogi. Hann er hins vegar með marga hæfileika sem geta nýst mörgum liðum. Hann var frábær með Fjölni fyrir ári og enn lifir sú von að þeir hæfileikar líti dagsins ljós aftur.

Þórður Ingason (Fjölnir)
Markvörður
Þórður Ingason er einn besti markvörður Pepsi-deildarinnar. Hann hefur heldur betur bætt leik sinn eftir að hann tók til í lífi sínu utan vallar. Þórður hefur sýnt mikinn aga í leik sínum og gerir sig sjaldan sekan um dýrkeypt mistök. Ef allt fer á versta veg gæti Fjölnir fallið úr deildinni og þá er ljóst að Þórður myndi reyna að koma sér í sterkara lið.

Árni Snær Ólafsson (ÍA)
Markvörður

Er að koma til baka eftir erfið meiðsl, er frábær spyrnumaður og getur verið öflugur á milli stanganna. Allt bendir til þess að Skaginn falli úr Pepsi-deildinni og þá er ekki ólíklegt að lið í deild þeirra bestu reyni að klófesta Árna.


desktop