„Ætla ekki að vera hrokafullur en við ætlum að gera harða atlögu“

Spá 433.is fyrir Pepsi deild karla heldur áfram í dag en við byrjuðum á fyrsta sætinu í gær.

Nú er komið að liðinu sem við spáum 2. sætinu og þar spáum við því að Breiðablik muni enda.

Blikar enduðu í sjötta sæti á síðustu leiktíð eftir slakan endi á tímabilinu.

,,Það er erfið spurning hvort maður yrði sáttur við annað sætið, ég ætla nú ekki að vera hrokafullur en markmiðið er að gera harða atlögu að 1. sætinu. Ég átta mig hins vegar á því að til þess að það gangi upp þá þurfa allir hlutir að detta með okkur. Það eru mörg góð lið og ég myndi halda að það séu 4-5 lið sem eru með það markmið að verða meistari. Við erum klárlega eitt af þeim, ég er ekki að tala um að það verði skandall ef við gerum það ekki en við setjum markið þangað. Við ætlum að reyna að berjast um þetta, það þurfa hins vegar allir hlutir að ganga upp. Maður myndi ekkert fara að grenja með annað sætið en við stefnum á að berjast um sigur í deildinni,“ sagði Arnar Grétarsson þjálfari Breiðabliks við 433.is.

Blikar hafa aðeins hikstað á undirbúningstímabilinu en Arnar er heillt yfir sáttur með það.

,,Það hefur svona verið smá ströggl á undirbúningstímabilinu en við erum á réttri leið, við höfum verið með menn í meiðslum og spilað talsvert á yngri mönnum í hluta af þeim leikjum sem hafa verið. Menn eru að koma betur inn í þetta, Martin Lund er alltaf að komast betur inn í hlutina og sömu sögu er að segja af Tokic. Viktor Örn er að ná áttum eftir aðgerð, hann er sterkur og stór biti fyrir okkur. Það hefur verið stígandi allt undirbúningstímabilið, það hefur ekki allt verið frábært en það hefur verið stígandi. Þetta er á leið í rétta átt.“

Vandamál Breiðabliks var fyrst og síðast að skora mörk og klára leiki og það vandamál virðist Arnar Grétarsson hafa leyst í vetur. Liðið hefur samið við Hrvoje Tokic sem var markahæstur hjá Víkingi Ólafsvík í fyrra, Martin Lund Pedersen sem var markahæsti leikmaður Fjölnis og Aron Bjarnason sem var markahæsti leikmaður ÍBV.

,,Við sáum það í fyrra að við skoruðum ekki nóg en vorum samt sem áður að skapa okkur miklu meira en nóg af færum, það var í raun sama í gangi árið 2015 en þá skoruðum við samt talsvert meira en 2016. Með tilkomu Arons, Tokic og Martin Lund að þá erum við að styrkja okkur fram á við. Við höfum auðvitað misst menn líka en þeir sem hafa komið eru allt flottir leikmenn. Tokic og Martin Lund hafa kannski verið að spila meira en Aron en ég vænti hins vegar mikils af Aroni. Sama hvort Aron byrjar eða ekki þá er þetta strákur sem getur gert gríðarlega mikið, hann hefur rosalega hæfileika. Hann getur hjálpað okkur mikið sama hvort það sé af bekknum eða í byrjunarliði. Hann getur unnið leiki fyrir okkur upp á sitt einsdæmi, hann er einn sá allra besti í að taka menn á. Aron er góður að fá boltann í lappir og í svæðið. Það sem hann þarf að bæta eru hlutir þegar við erum ekki með boltann, þegar hann er orðinn góður þar þá held ég að hann geti náð mjög langt, ég sé hann alveg fara erlendis og gera flotta hluti þar.“

Elfar Freyr Helgason var lánaður til Horsens í upphafi árs en líkur eru á að hann komi aftur um mitt sumar. Arnar útilokar þó ekki að fá sér miðvörð á næstu vikum.

,,Hann er lánaður út og þeir þurfa að gera það upp við sig í byrjun maí hvort þeir ætla að kaupa hann. Ef hann er ekki að spila eins og verið hefur, hann hefur verið meira á bekknum að þá á ég síður von á því að þeir muni nýta það ákvæði. Þá kemur hann til baka en verður ekki löglegur með okkur fyrr en 15 júlí. Maður veit ekki hvað gerist, það getur margt breyst á næsta mánuði hjá Horsens. Þetta er bara eitthvað sem við skoðum, hann er spurningarmerki. Viktor fór í aðgerð og við erum rosalega vel mannaðir þar ef þeir verða báðir til staðar. Ég hef alltaf sagt það að við höfum verið með þrjá mjög svipaða leikmenn af getu í þessari stöðu, Damir, Elfar og Viktor. Viktor fór í aðgerð og ef hann er ekki orðinn 100 prósent á næstu vikum þá gætum við þurft að skoða stöðuna. Hann er búinn að vera að æfa og hann ætti að geta tekið þátt í öllu á næstunni. Ef hann er að ströggla áfram þá fer maður kannski að hafa áhyggjur.“

Blikar enduðu síðustu leiktíð illa en Arnar finnur fyrir hungri í hópi sinna leikmanna að gera betur í ár.

,,Ef maður horfir í það hvernig taflan var eftir tímabilið þá höfum við eitthvað að sanna en ég vil reyndar meina að við hefðum alltaf átt að enda í 2-3 sæti miðað við spilamennsku. Taflan lýgur hins vegar ekki, við enduðum þarna og þurfum bara að bretta upp ermar og gera mun betur.“

,,Þetta eru allt strákar sem eru vanir því að vinna í yngri flokkum, margir af þeim koma svo inn 2015 og þar vinnum við allt á undirbúningstímabilinu. Setjum stigamet hjá félaginu með 46 stig í Pepsi deildini og setjum met í að fá á okkur fá mörgum. Því miður var FH bara enn betra það sumarið, menn vilja gera mun betur og það er stutt á milli að vera í 1 sæti eða hreinlega í 5 sæti. Þetta eru allt alvöru leikir í þessari deild, það eru 4-5 lið sem stefna á að vinna deildina en það geta allir unnið alla í deildinni. Menn vilja bæta fyrir síðasta tímabil.“


desktop