Af hverju er fólk hætt að mæta á völlinn?

Mynd tengist fréttinni ekki.

Það er ljóst að Pepsi-deild karla á í vandræðum með að fá fólk til að mæta á völlinn og styðja sín lið. Mætingin á leiki í efstu deild karla í sumar var sú versta frá árinu 1998 ef skoðað er meðaltal áhorfenda á hvern leik. Ljóst er að vandamálin eru mörg en áhorfendum fækkaði mikið árið 2016 og enn frekar í ár. Snúa þarf við taflinu til þess að fótboltinn haldi vinsældum sínum hér á landi.

Aðstaða á völlunum
Aðstaða við vellina er misjöfn en á flestum stöðum er mörgu ábótavant, þar þurfa mörg félög að gera betur. Nærtækt dæmi er aðstaða á KR-vellinum þar sem litlu hefur verið bætt við síðustu ár, salernisaðstaða og vandi við bílastæði er mikill á KR-vellinum. Hjá Breiðabliki er hlaupabraut sem skemmir upplifunina af leiknum og hjá Fjölni er aðstaðan líklega sú allra versta í efstu deild karla og hefur verið í mörg ár. Ekki er nein yfirbyggð stúka, langt er frá inngangi að stúku og aðstöðu fjölmiðla er ábótavant. Aðstæður eru heldur ekki til fyrirmyndar hjá Víkingi R og Grindavík svo dæmi séu tekin. Aðstaðan er líklega best í Kaplakrika þar sem menn hafa vandað til verka.

Miðaverð
Miðaverð á leiki deildarinnar var hækkað úr 1.500 krónum í 2.000 krónur fyrir liðna leiktíð, það var ekki til að hjálpa til. ÍTTF og þeir sem standa að deildinni létu blekkjast, þeir töldu að fækkun áhorfenda árið 2016 mætti að mestu leyti skrifast á Evrópumótið í knattspyrnu sem fram fór í Frakklandi. Héldu flestir að áhugi Íslendinga á Evrópumótinu hefði átt þar stærstan hlut að máli, en það reyndist rangt mat. Aðrar ástæður eru að baki og þurfa ÍTF, KSÍ og Ölgerðin að setjast yfir málið og skoða hvað sé til ráða.

Beinar útsendingar
Stöð2 Sport hefur aldrei sýnt fleiri leiki í beinni útsendingu en á síðustu leiktíð og er ljóst að allar þessar beinu útsendingar geta haft áhrif, sérstaklega þegar upplifunin við að fara á völlinn er ekki meiri en hún er. Margir knattspyrnuáhugamenn sem DV ræddi við voru á sama máli; að sú staðreynd að fjöldi þeirra leikja sem er í beinni útsendingu hafi áhrif á mætingu þeirra á völlinn. Oft var hægt að horfa á tvo leiki í beinni útsendingu og svo Pepsi-mörkin. Á meðan félögin sofa á verðinum er erfitt að sannfæra fólk um að mæta á völlinn í stað þess að horfa á leikina í sjónvarpinu. Með veraldarvefnum eru svo margir sem stela þjónustunni og horfa á leikina frítt á streymisveitum sem bjóða upp á slíkt, það er stórt vandamál. Þar er í dag hægt að sjá alla leiki.

Hvað með börnin?
Hvað með börnin? Þetta er lína sem knattspyrnuáhugamenn fá að heyra þegar sú hugmynd kemur upp að bjórsala verði leyfð á knattspyrnuvöllum landsins, í flestum stærri löndum er slíkt leyft. Forræðishyggjan á Íslandi er hins vegar sterk og því er þetta bannað. Eða hvað? Flest félög selja nefnilega bjór í reykmettuðum bakherbergjum þar sem allir geta komið við. Um er að ræða feluleik sem allir vita af en enginn segir neitt við, það er því ljóst að þetta er í boði þrátt fyrir boð og bönn. Það myndi auka tekjur íþróttafélaga ef salan væri fyrir opnum dyrum, þegar undirritaður hefur farið á knattspyrnuleiki úti í heimi verður hann lítið var við ölvun. Fólk fær sér kannski 2–3 bjóra og stemmingin verður meiri. Börn hafa ekki hlotið varanlegan skaða af bjórdrykkju á leikjum erlendis, af hverju ætti það að gerast á Íslandi?

Erlendir leikmenn
Upp hefur komið sú umræða að í Pepsi-deild karla séu of margir erlendir leikmenn sem bæta litlu við deildina, stóra spurningin er hvort eigi að setja fjöldatakmörk á erlenda leikmenn hjá hverju liði. Það gæti ýtt undir að leikið yrði fram ungum og uppöldum leikmönnum. Það eitt færir stuðningsmenn liðanna nær liðinu og myndar tengingu og gæti hjálpað til við að fjölga á vellinum. Ættingjar og vinir myndu þar með hafa ríkari ástæðu til þess að mæta á völlinn. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða með opnum huga.

Stórmóta afsökun ekki í boði
Ljóst er að Pepsi-deildin á undir högg að sækja þegar kemur að aðsókn á völlinn og því tafli þarf að snúa við. Fyrir ári var afsökunin sú að Evrópumótið hefði verið í gangi. Sú afsökun var ekki gild í sumar og Ölgerðin, ÍTF og KSÍ þurfa að setjast niður í vetur og bretta upp ermar. Félögin mega ekki við því að fækkunin verði meiri. Um gríðarlegt tekjutap er að ræða. Sumir benda á að íslenska landsliðið gæti hafa stolið áhuganum, allir knattspyrnuáhugamenn elska landsliðin okkar um þessar mundir. Það ætti aftur á móti að ýta undir knattspyrnuáhuga um allt land.

Félögin geri meira úr leikjum
Íslensk félög þurfa að gera meira úr þeirra upplifun að fara á völlinn, eitthvað þarf að vera fyrir börnin svo að það verði fjölskylduskemmtun að koma á völlinn. Bæta þarf umgjörð og það sem er í boði á völlunum, það á að vera skemmtun fyrir alla fjölskylduna að fara og sjá liðið í sínu hverfi spila. Skoða þarf hvaða áhrif það hafði að hækka miðaverðið og sjá hvort að lækkun á því myndi skila sér í aukinni mætingu. Það er augljóst að félögin mega ekki við meiri fækkun miðað við öll þau útgjöld sem fylgja því að reka knattspyrnulið í fremstu röð á Íslandi í dag. Ölgerðin þarf svo að hugsa markaðsstarf sitt upp á nýtt en fyrirtækið byrjaði af miklum krafti eftir að það tók yfir deildina en heldur hefur dregið úr sýnileika fyrirtækisins í kringum deildina.

Hvað segir Íslenskur toppfótbolti?
Íslenskur toppfótbolti er hagsmunasamtök félaga í efstu deild og þau hafa áhyggjur af stöðunni sem er í gangi. Félögin hafa orðið fyrir gríðarlegu tekjutapi með fækkandi fólki á vellinum. Hvað er það sem er að? „Það eru sjálfsagt mörg atriði, það er erfitt að setja þetta á eitthvað eitt. Menn eru farnir að geta séð hvern einasta leik á netinu, sumir tala um miðaverðið. Ég sé ekki neinn svakalegan mun á mætingunni á þá leiki sem var frítt á eða þá kostaði 2.000 krónur á. Það er erfitt að segja, kynningin á deildinni var að okkar mati ekki alveg nógu góð. Menn þurfa að fara í naflaskoðun í vetur og nýta tímann vel fyrir næsta sumar,“ sagði Haraldur Haraldsson, formaður Toppfótbolta og knattspyrnudeildar Víkings.

Beinar útsendingar og miðaverðið
Mikil fjölgun hefur orðið á beinum útsendingum og miðaverðið hefur hækkað í 2.000 krónur, hefur þetta eitthvað að segja? „Það er mikil fjölgun á beinum útsendingum en að sama skapi er þessi samningur um sjónvarpsréttinn okkur mikilvægur. Það eru fleiri leikir í beinni og miðað við það sem ég heyri þá er hægt að nálgast alla leiki á netinu. Kannski er þessi sjónvarpssamningur að naga okkur í rassgatið.“

Haraldur er ekki á því að hækkandi miðaverð hafi eitthvað að segja um fækkun á vellinum. „Mér finnst miðaverðið ekki spila neitt inn í þetta, þeir sem voru tímanlega hjá okkur í Víkingi gátu fengið ársmiða á 10 þúsund krónur. Það er djókverð, ég veit ekki hver nálgunin er hjá öðrum félögum. Við vorum með skítsæmilega mætingu í sumar, ekki mikill munur frá síðasta ári. Vonbrigðin voru kannski mest undir lokin þegar FH og Stjarnan komu í heimsókn, mætingin á þá tvo leiki var eins og hún ætti að vera á einn af þessum leikjum. Það sem er svo hægt að benda á er að KA og Grindavík komu upp og þau eru ekki með sömu aðsókn og og Þróttur og Fylkir. Þróttarar voru sterkir framan af móti í fyrra og Fylkir er alltaf með traustan kjarna. Það er hægt að setja fækkunina að hluta til á að fleiri lið voru á landsbyggðinni.“

Þyngri rekstur
Reksturinn verður erfiðari þegar færri mæta á völlinn að sögn Haraldar. „Þetta er farið að höggva í reksturinn, það er ekki spurning. Ef maður ber þetta saman núna og fyrir nokkrum árum er munurinn mikill. Velta deildanna hefur aukist mikið, ég held að flestir séu sammála um það. Þetta er miklu meiri rekstur en á sama tíma þá er áhorfendum að fækka.“

Íslenskur toppfótbolti fór til Noregs á dögunum til að skoða breytingar sem hafa orðið þar. „Við fórum til Noregs og skoðuðum hvernig þeir eru búnir að endurskipuleggja deildina hjá sér. Mér finnst að við ættum að gera tilraunir, hvernig væri leiktími klukkan 18.00 á laugardegi? Þetta væri byrjun á góðu laugardagskvöldi hjá mörgum. Það þarf að prófa sig áfram,“ sagði Haraldur og upp er komin hugmynd með sérstakt útileikjakort.

„Við erum svo með hugmynd um sérstakt útileikjakort. Það yrði kannski tíu miða kort, það þyrftu þá öll lið að vera með í þeim breytingum. Það þarf að útfæra það rétt.“

Markaðsherferð í gegnum Áttuna
Stór hluti af markaðsherferð Ölgerðarinnar hefur farið í gegnum Áttuna sem séð hefur um markaðsherferð fyrirtækisins síðustu tvö sumur. Haraldur bendir á að sú herferð herji á yngri markhóp en þá sem borga sig inn á völlinn. „Ölgerðin hefur farið þá leiðina síðustu tvö sumur að setja stærstan hluta af sinni markaðsherferð í Áttuna, það er svona yngri markhópurinn. Það nær ekki til þeirra sem eru 25 ára og eldri, sem eru í raun að borga sig inn á völlinn. Allir aðilar sem koma að þessu þurfa að nýta veturinn vel, ÍTF, 365, KSÍ og Ölgerðin. Við höfum lagt til við KSÍ að byrja þessa vinnu fyrr en seinna.“

Hvað segir Ölgerðin?
Ölgerðin hefur mikið að segja um hvernig deildin er sett upp og hvernig markaðsstarf er í kringum hana. Ölgerðin hefur unnið gott starf í kringum deildina. Sandra Björg Helgadóttir er vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni og hefur síðustu ár stýrt því sem gerist í kringum Pepsi-deildina. „Okkur finnst þetta áhyggjuefni en við erum svolítið beggja megin við borðið. Við viljum fjölga beinum útsendingum og fá almennan áhuga á fótboltanum. Það er kannski að skila sér í færri áhorfendum á völlinn, við erum að sama skapi mjög ánægð með alla umfjöllun um deildina og áhugann á henni,“ sagði Sandra þegar DV leitaði viðbragða hjá henni.

Herferðin í ár skilaði ekki sínu
Herferð Pepsi-deildarinnar í ár var með slagorðið „Koma svo“. Átti það að ýta undir fólk að mæta á völlinn en miðað við tölurnar gekk sú herferð ekki upp. „Herferð okkar í sumar snerist að mestu leyti um það að fá fólk á völlinn, slagorðið okkar var „Koma svo“. Það átti að vera hvetjandi fyrir fólk að koma á völlinn og hvetja sitt lið áfram. Við herjuðum á útvarpsauglýsingar þar sem leikirnir voru auglýstir með því slagorði. Við hugsum okkar markaðssetningu út frá því að fá fólk á völlinn.“

Áttan leikur stórt hlutverk
Sumir hafa gagnrýnt að Ölgerðin sé að setja of mikla ábyrgð og fjármuni af sínu markaðsstarfi í Áttuna, krakkarnir þar ná meira til yngri markhóps sem er kannski ekki að borga sig inn á völlinn. „Við erum búnir að fá þá til að sjá um Pepsi-deildar Snapchat-ið, þeir mæta á einn leik í hverri umferð í karla og kvenna deildinni. Það var hugsað til að sýna stemminguna á vellinum þar sem fólk er að fá sér hamborgara eða kaffi. Sýna hverjir væru í stúkunni og þannig hluti. Þegar þeir mæta og það er kannski enginn í stúkunni getur það haft öfug áhrif. Við höfum notað mikið fjármagn í birtingar hjá 365 miðlum,“ sagði Sandra en vörumerkið Pepsi hefur styrkst mikið frá því að samstarfið við deildina hófst.

Mikil fækkun:
Þegar tölurnar eru skoðaðar frá 2010 kemur margt áhugavert í ljós, við bárum saman tölurnar hjá liðunum í deildinni sem voru árið 2010 og árið 2017. Íslandsmeistarar Vals voru meðal annars ekki með yfir þúsund áhorfendur að meðaltali á leik í sumar.

Áhorfendur 2010 að meðaltali:
KR – 1.893
FH – 1.773
Breiðablik – 1.544
Valur – 1.112
Grindavík – 904
Stjarnan – 886
ÍBV – 868

Áhorfendur 2017 að meðaltali:
KR – 1.123
FH – 1.060
Breiðablik – 1.096
Valur – 977
Grindavík – 594
Stjarnan – 953
ÍBV – 640

Áhorfendur í Pepsi deildinni að meðaltali:
2017 – 838
2016 – 975
2015 – 1.107
2014 – 923
2013 1.057
2012 – 1.034
2011 1.122
2010 1.205


desktop