Frábæra saga um Jóhann Berg – U19 ára þjálfari vildi ekki sjá hann

Ólafur Helgi Kristjánsson var á dögunum ráðinn þjálfari FH í efstu deild karla í knattspyrnu. Ólafur er einn allra færasti þjálfari Íslands en snýr nú heim eftir nokkur ár í atvinnumennsku. Ólafur sagði upp starfi sínu hjá Randers í október og er nú kominn þangað sem ferillinn hófst. Ólafur er FH-ingur í húð og hár, en hér heima er hann þekktastur fyrir starf sitt hjá Breiðabliki þar sem hann stýrði liðinu að bikar- og Íslandsmeistaratitli, þeim fyrstu í sögu félagsins.

Sumarið 2008 sló Jóhann Berg Guðmundsson í gegn hjá Breiðabliki, þá 17 ára gamall. Ólafur reyndi að koma Jóhanni í U19 ára landsliðið en án árangurs.

Meira:
Ítarlegt viðtal við Ólaf K – Eins og uppvakningur eftir að hafa misst bróður sinn

„Við vorum í æfingarferð á Spáni árið 2008 og Marel Baldvinsson meiddist. Jóhann Berg kom þá inn í liðið og byrjaði að æfa með okkur. Hann leit aldrei um öxl eftir það,“ sagði Ólafur.

,,Ég hitti Jóhann Berg haustið 2007. Ég var í Fífunni og þar kom inn drengur og gaf sig á tal við Arnar Bill. Þarna var Jóhann kominn og spurði hvort hann mætti ekki fá bolta. Ég spurði Arnar út í hann og hann sagði mér að Jói hefði verið úti í Englandi og væri mjög flottur leikmaður. Arnar sagði mér að Jóhann hefði slitið krossband. Hann byrjaði að æfa með 2. flokki og Pétur Pétursson, sem var þjálfari þar, vildi skóla hann til.“

,,Ég sá hann spila leik í Fífunni og vildi fá hann tafarlaust inn í meistaraflokkinn. Það var æfingahelgi hjá U19 ára landsliðinu og ég komst að því að Jói hefði ekki verið valinn. Ég hringdi í þjálfara liðsins og sagði sem var, að mér væri fyrirmunað að skilja hvers vegna Jói hafi ekki verið valinn. Þjálfarinn sagði mér að Jói væri ekki nógu góður en ég sagði honum að hann skyldi taka Jóa inn á æfingar.“

,,Hann var ekki sannfærður en fór að ráðum mínum. Svo var hópurinn valinn og Jói ekki í honum. Ég hringdi aftur í þjálfarann og spurði hverju það sætti. Hann sagði mér að hann hefði betri leikmenn, Jói væri slakur í vörn og væri bara dúkkulísa. Ég sagði að ég nennti ekki að ræða þetta meira við hann en sagði honum þó að þetta yrði í síðasta sinn sem hann myndi ekki velja Jóa; það væri ekki hægt að ganga fram hjá honum. Og viti menn – U21 árs landsliðið var valið og hver var þar ef ekki Jóhann. Næstu landsleikir á eftir voru svo A-landsleikir.“


desktop