Heiti potturinn tæmist yfirleitt þegar Pape sest í hann

Föstudaginn 22. september stendur Æskulýðsvettvangurinn fyrir ráðstefnu í Hörpu sem ber yfirskriftina „Hatursorðræða í íslensku samfélagi“. Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra opnar ráðstefnuna klukkan 9.00 og mun henni ljúka um hádegi. Á mælendaskrá eru meðal annars Sema Erla Serdar verkefnastýra, María Helga Guðmundsdóttir, formaður Samtakanna ’78, og Pape Mamadou Faye, framherji knattspyrnuliðs Víkings í Ólafsvík, en hann hefur talað opinskátt um það kynþáttahatur sem hann hefur orðið fyrir síðan hann flutti til Íslands árið 2003.

Pape segir að fjölgun ferðamanna og innflytjenda hafi gert lífið auðveldara fyrir hann. „Þegar ég flutti hingað átti ég erfitt með að sætta mig við hvernig samfélagið brást við mér.“ Hvert sem hann fór var starað á hann. „Hvort sem það var í búðum eða í strætisvögnum. Þetta var mjög truflandi,“ segir Pape í helgarblaði DV.

Hann segir hið dulda kynþáttahatur særa meira en hið opna. Kynþáttahatur sem fólk gerir sér jafnvel ekki grein fyrir að það sé haldið. „Ég lendi oft í því að fólk reynir að forðast mig og vill ekki sitja við hliðina á mér í strætisvögnum, jafnvel þó að vagninn sé þétt setinn. Mjög oft er sætið við hliðina á mér tómt en samt kýs fólk að standa.“

Pape segir þetta sérstaklega áberandi þegar hann fer í sund. „Í hverri sundlaug er yfirleitt einn pottur með þægilegasta hitastiginu sem flestir eru í. Ég hef oft lent í því að eftir að ég sest í heitan pott tæmist hann á tveimur mínútum. Fólk fer í burtu og enginn kemur í staðinn. Sumir virðast vera á leiðinni í pottinn þegar þeir sjá mig og hætta þá við. Þetta er mest særandi rasisminn.“

Lestu ítarlegt viðtal við Pape í helgarblaði DV


desktop