Íhugar hallarbyltingu hjá Breiðabliki – Eiga ekki að reka knattspyrnulið

Kristján Óli Sigurðsson sérfræðingur Harmageddon um Pepsi deild karla og fyrrum kantmaður Breiðabliks er allt annað en sáttur með stjórn knattspyrnudeildar og ákvörðun hennar að reka Arnar Grétarsson úr starfi.

Arnar var rekinn úr starfi fyrri tæpri viku eftir tvær umferðir í Pepsi deildinni.

Kristján segir að stjórnin sem tók þessa ákvörðun eigi ekki að koma nálægt rekstri á knattspyrnudeild.

,,Þessi stjórn sem er yfir þessu núna tekur við í febrúar og búið að reka þjálfarann þremur mánuðum síðar. Þetta er grín, sérstaklega ef þú ert ekki með plan til að taka við, ekkert klárt í þeim efnum. Þetta hefði aldrei gerst í tíð Borghildar, þegar hún réð ríkjum þarna,“ sagði Kristján X977 í dag.

,,Þetta er einhver heimskulegasta ákvörðun sem hefur verið tekinn í íslenskum fótbolta fyrr og síðar, þetta gæti orðið dýrkeypt fyrir félagið til frambúðar.“

,,Svörin sem hafa komið eru ekki skýr. Ef að KR hefði tapað fyrir Ólafsvík, heldur þú að Willum hefði verið rekinn? Þetta er svo vanhugsað, mér er skapi næst að fara að styðja HK.“

Blikar leita enn að nýjum þjálfara en Kristján íhugar það að fá fólk með sér og gera hallarbyltingu í Kópavoginum fyrir næstu leiktíð.

,,Þegar tímabilið er ný byrjað er gefið mál að bestu þjálfarar landsins eru allir í vinnu við að þjálfa, það er ekki auðvelt að fá nýjan mann í brúnna. Sama hver verður ráðinn, ef þeir finna þjálfara á Íslandi þá get ég nánast lofað því að hann er ekki betri þjálfari en Arnar.“

,,Mig langar að gera hallarbyltingu strax á næsta ári og henda þessu hyski út, þetta eru rekstrarmenn sem eru í Glitni eða Íslandsbanka og slitastjórnum. Þeir eru kannski fínir í því en þeir eiga ekki að koma nálægt rekstri á knattspyrnuliði.“

Viðtalið er í heild hér að neðan.


desktop