Ítarlegt viðtal við Ólaf K – Eins og uppvakningur eftir að hafa misst bróður sinn

Ólafur Helgi Kristjánsson var á dögunum ráðinn þjálfari FH í efstu deild karla í knattspyrnu. Ólafur er einn allra færasti þjálfari Íslands en snýr nú heim eftir nokkur ár í atvinnumennsku. Ólafur sagði upp starfi sínu hjá Randers í október og er nú kominn þangað sem ferillinn hófst. Ólafur er FH-ingur í húð og hár, en hér heima er hann þekktastur fyrir starf sitt hjá Breiðabliki þar sem hann stýrði liðinu að bikar- og Íslandsmeistaratitli, þeim fyrstu í sögu félagsins.

Ólafur átti einnig farsælan feril sem leikmaður og lék 14 A-landsleiki. „Ég var valinn í liðið þegar það voru æfingarleikir en þegar stóru leikirnir voru og kanónurnar mættu þá var hlutskipti mitt að vera bekknum eða eitthvað í þeim dúr. Ég var leikmaður í A-landsliðinu frá fimmtán ára aldri til tvítugs. Þegar ég hugsa til baka, þá hefði ég sem þjálfari eflaust orðið pirraður á mér sem leikmanni. Ég hefði átt að gera alvöru atlögu að sæti. Kannski var getan ekki næg til þess,“ sagði Ólafur þegar blaðamaður 433.is settist niður með honum í Kaplakrika í síðustu viku.

Ætlaði í nám en endaði í atvinnumennsku
Árið 1997 hafði Ólafur leikið með KR í tvö ár en flutti til Danmerkur og fór í atvinnumennsku. „Það er skondin saga, 1996 og 1997 voru átakatímabil. Luka Kostic var látinn fara og það var umbrotatími í KR og þurfti að hrista upp í hlutunum. Ég og fyrrverandi kona mín vorum orðin þreytt á því að vera hér heima, við vorum með fjölskyldu og það voru æfingar á kvöldin. Hún hafði ákveðið að fara í framhaldsnám í Árósum og ég fylgdi með. Mér fannst það bara spennandi. Ég ætlaði mér sjálfur á skólabekk og ákvað svo að láta á það reyna hvort ég mætti ekki æfa með AGF. Ég bankaði upp á, kynnti mig og sagði að ég væri með ákveðinn fjölda af landsleikjum og hitt og þetta. Ég bað um að fá að æfa með þeim til að halda mér við og einhverra hluta vegna gekk það upp. Það hljóta að hafa verið mikil meiðsli þarna, ég fékk samning fram að áramótum en ég kom út í ágúst. Ég byrjaði nokkuð sterkt, svo fékk ég lengri samning. Það var alveg frábært, ég var búinn að setja fótboltann í annað sætið. Þegar þetta kom upp í hendurnar á mér, ákvað ég að láta slag standa. Ég var orðinn 29 ára gamall og fékk þetta tækifæri.“

Öllari eftir leik og Gammel dansk í morgunmat
Menningin í Danmörku á þessum árum var allt önnur en hún er í fótboltanum í dag og Ólafur kynntist því fljótt. „Ég man alltaf eftir fyrsta leiknum sem ég spilaði fyrir AGF. Við komum inn í klefa eftir leikinn og þar kom húsvörðurinn með tvo kassa af bjór. Bjórinn flæddi og svo sátu nokkrir með sígarettur inni í klefa og reyktu, þetta var nokkuð sem hafði ekki tíðkast á Íslandi í einhver tíu ár. Mér fannst þetta frekar skrýtið. Við æfðum tvisvar á dag þrisvar í viku. Það var þessi hluti, bjórinn og sígaretturnar, sem ég var mjög hissa á. Þetta var í kringum 1997 og 1998, en síðan heyrir þetta sögunni til. Ég náði restinni af þessum danska sið; að öllarinn væri í klefanum.“

,,Það voru skemmtilegir karakterar þarna, ég spilaði með, Torben Piechnik sem var hjá Liverpool. Hann var mikill öðlingur, við vorum saman í húsi í einni æfingarferð, það var dæmi um atvinnumennskuna á þeim tíma. Það var bankað á herbergisdyrnar hjá mér klukkan 7.15 og Torben lét mig vita að það væri morgunmatur, ég kom fram og þar var diskur og bolli og lítið staup. Ég hugsaði með mér hvort þetta væri berjasaft. Það var ristað brauð og hann hafði hellt upp á kaffi. Svo náði hann í flösku af Gammel dansk. Hann sagði mér að í þessu húsi og í þessari ferð væri alltaf eitt þannig skot á morgnana. Svo var sagt skál og ég hellti þessu í mig. Svo var æfing einum og hálfum tíma seinna. Danir líta á Gammel dansk sem meðal.“

,,Andrúmsloftið var skemmtilegt. Þetta hefur breyst mikið, margir þeirra sem ég spilaði með þarna fóru að þjálfa. Það var afar óvænt og gaman að kynnast þessu lífi. Ég fór óvenjulega leið.“

Las Fram ekki nógu vel
Eftir að hafa þjálfað U19 ára lið AGF og verið aðstoðarþjálfari aðalliðsins kom Ólafur heim sumarið 2004 og bjargaði Fram frá falli. Ári eftir var hann rekinn úr starfi. „Ég gerði örugglega fjölda mistaka, þegar ég kom til Fram, en þá fannst mér ég þurfa að taka mikið til. Það var stórt stökk úr því umhverfi sem ég hafði verið í, menn mættu á æfingu með rækjusamloku og kók og hoppuðu út úr bílnum. Þarna þurfti að taka til. Á hverjum nýjum stað sem þú kemur á eru hlutirnir öðruvísi. Þegar ég kom til Fram þá snerist málið um að halda í horfinu. Markmiðið var eitt og það var að falla ekki niður um deild. Mistökin sem ég gerði voru að trúa því að það væri eitthvað í þessu til lengri tíma litið, árið 2005, en svo féllum við. Allt sumarið töluðu menn um að sama hvernig færi þá myndu menn standa saman. Þegar illa gengur er klassískt að láta þjálfarann taka pokann sinn. Að vera rekinn frá Fram, haustið 2005, var sennilega það besta sem hefur hent mig á ferlinum.“

,,Ég tók ekki við Breiðablik fyrr en í júlí árið 2006. Þar var um björgunarstarf að ræða, líkt og hjá Fram. Fljótlega fann ég samt að ég naut mikils stuðnings innan stjórnarinnar, í innsta kjarna. En utan stjórnar gætti óþolinmæði. Árin 2006 til 2008 einkenndust af átökum hjá Breiðabliki. Gengi liðsins hafði ávallt verið upp og ofan, en við náðum að finna stöðugleika. Ég skynjaði að raunhæft væri að horfa fram á veginn og hugsa dæmið til lengri tíma. Munurinn á Fram og Breiðabliki var að hjá Breiðabliki var frábær aðstaða og yngri flokkarnir skiluðu frábærum leikmönnum. Maður þarf að hugsa þetta dæmi á tveimur stigum; að komast í úrslit núna og á sama tíma að hugsa til framtíðar.“

,,Hjá Fram var ég kannski ekki nógu einbeittur varðandi að komast í úrslit, þá og þegar. Eftir á að hyggja held ég að ég hafi hvorki lesið klúbbinn né leikmennina nógu vel. Það er ekkert eðlilegt við það að sitja fundi með stjórnarmönnum og ræða af hverju hinn og þessi leikmaður væri ekki að spila. Stjórnarmönnum kemur það ekkert við. Slíkt átti sér aldrei stað hjá Breiðabliki.“

Stjarna sem landsliðsþjálfari hafði ekki áhuga á
Sumarið 2008 sló Jóhann Berg Guðmundsson í gegn hjá Breiðabliki, þá 17 ára gamall. Ólafur reyndi að koma Jóhanni í U19 ára landsliðið en án árangurs.

„Við vorum í æfingarferð á Spáni árið 2008 og Marel Baldvinsson meiddist. Jóhann Berg kom þá inn í liðið og byrjaði að æfa með okkur. Hann leit aldrei um öxl eftir það.“

,,Ég hitti Jóhann Berg haustið 2007. Ég var í Fífunni og þar kom inn drengur og gaf sig á tal við Arnar Bill. Þarna var Jóhann kominn og spurði hvort hann mætti ekki fá bolta. Ég spurði Arnar út í hann og hann sagði mér að Jói hefði verið úti í Englandi og væri mjög flottur leikmaður. Arnar sagði mér að Jóhann hefði slitið krossband. Hann byrjaði að æfa með 2. flokki og Pétur Pétursson, sem var þjálfari þar, vildi skóla hann til.“

,,Ég sá hann spila leik í Fífunni og vildi fá hann tafarlaust inn í meistaraflokkinn. Það var æfingahelgi hjá U19 ára landsliðinu og ég komst að því að Jói hefði ekki verið valinn. Ég hringdi í þjálfara liðsins og sagði sem var, að mér væri fyrirmunað að skilja hvers vegna Jói hafi ekki verið valinn. Þjálfarinn sagði mér að Jói væri ekki nógu góður en ég sagði honum að hann skyldi taka Jóa inn á æfingar.“

,,Hann var ekki sannfærður en fór að ráðum mínum. Svo var hópurinn valinn og Jói ekki í honum. Ég hringdi aftur í þjálfarann og spurði hverju það sætti. Hann sagði mér að hann hefði betri leikmenn, Jói væri slakur í vörn og væri bara dúkkulísa. Ég sagði að ég nennti ekki að ræða þetta meira við hann en sagði honum þó að þetta yrði í síðasta sinn sem hann myndi ekki velja Jóa; það væri ekki hægt að ganga fram hjá honum. Og viti menn – U21 árs landsliðið var valið og hver var þar ef ekki Jóhann. Næstu landsleikir á eftir voru svo A-landsleikir.“

Heppinn að missa ekki starfið í Kópavogi
Ólafur vann fyrsta stóra bikarinn í karlaflokki í Breiðabliki sumarið 2009 þegar liðið varð bikarmeistari. Fyrr það sumar hafði komið til tals að víkja Ólafi úr starfi. „Það var sætt að vinna bikarinn um haustið. Ég veit í dag að það stóð styr um mig. Í dag brosa til mín menn sem sögðust alltaf bakka mig upp, en gerðu það þó ekki. Það skiptir mig litlu. Menn verða að eiga það við sína samvisku.

,,Þá var stjórnin og fleiri grjóthörð á því því að ég ætti að halda áfram. Ég persónulega upplifði þar stuðning sem ég hef hvergi áður upplifað sem þjálfari. Við hefðum ekki orðið Íslands- og bikarmeistarar ef ekki hefðu verið menn þar sem settu hnefann í borðið, trúðu á að verið væri að gera góða hluti og sögðu að þeir hlustuðu ekki á eitthvert kjaftæði.“

,,Við spiluðum undanúrslitaleik í bikarnum gegn KR árið 2008 og ég fór upp í herbergi með stuðningsmönnum og sagði þeim að ég ætlaði að verða fyrsti þjálfarinn til að vinna stóran bikar fyrir karlaliðið. Margir hlógu að mér en mér fannst mikilvægt að menn hefðu trú á möguleikanum. Ef leiðtoginn þorir ekki að segja það, hver á þá að trúa því? Þessi leikur fór í vítaspyrnukeppni og sérfræðingarnir – þeir voru til þá líka – sögðu vitleysu að láta Alfreð Finnbogason taka vítaspyrnu. Hann klikkaði. Arnar Grétarsson, sem var elstur, tók spyrnu og klikkaði líka. Ég þekkti Alfreð og vissi að hann myndi borga þetta til baka síðar. Þess vegna var fallegt þegar hann skoraði bæði mörkin í leiknum og vippaði svo beint á markið í vítaspyrnukeppni. Þá tók Alfreð vindil í munninn og tróð upp í alla. Sumarið 2009 var rosalegur kurr í félaginu og sérstaklega eftir tapið gegn Þrótti. Þetta sýnir hvað veður geta skipast skjótt í lofti. Við vorum ekki frábærir í deildinni, en fórum á skrið í bikarnum. Þá var ísinn brotinn og menn fóru að trúa að þetta væri hægt.“

Missti bróður sinn í bílslysi
Bróðir Ólafs, Hrafnkell Kristjánsson, lést á gjörgæsludeild LSH í Fossvogi 25. desember, 2009, eftir umferðarslys. „Árið 2009 lenti Hrafnkell bróðir í bílslysi og dó. Eftir það atvik fór ég eins og uppvakningur í gegnum árið 2010.

,,Svo tók ég ákvörðun: Farðu alla leið. Ekki vera með minnimáttarkennd eða biðjast afsökunar á sjálfum þér. Það var eins og ég hefði fengið auka kraft, það voru geggjaðir leikir á þessu tímabili. Það var spil hjá okkur á köflum sem ég hafði ekki séð áður, liðið var frábært. Hver leikmaðurinn á fætur öðrum blómstraði.“

Persónleikapróf breytti miklu
Ólafur lét leikmenn Breiðabliks taka persónuleikapróf og öðlaðist þannig vitneskju um hvernig hann ætti að nálgast þá. „Árið 2007 og 2008 byrjuðum við að einbeita okkur að fleiru en fótboltanum. Með aðstoð góðs vinar míns fór ég að skoða persónuleikana, hvernig karaktera væri um að ræða. Við lögðum persónuleikapróf fyrir alla leikmenn, fyrir liðið sem heild og einstaklinga. Spurningin snerist ekki eingöngu um hvernig þeir gætu tekið á móti bolta, sparkað eða hlaupið. Spurningin var einnig: hver er Kristinn Steindórsson? Hver er Kristinn Jónsson? Og svo framvegis. Hvernig á ég að nálgast þá, hvernig kem ég þeim í gang? Það var ómetanlegt að geta sem þjálfari nálgast leikmannahóp sinn á annan hátt. Í ljós kom að einn leikmaður þoldi gagnrýni illa. Þegar mér varð það ljóst, þá breyttist nálgun mín á hann. Ég var með annan leikmann sem þoldi meira og mátti heyra allt, ég notaði hann þá sem ruslatunnuna, þegar þurfti að koma einhverju fyrir. Ég notaði þá sem ég mátti í raun skamma til að koma skilaboðum til alls hópsins. Ég man eftir atviki þar sem ég tók skóinn frá einum og grýtti honum í heita pottinn í klefanum hjá Breiðabliki. Menn höfðu verið eins á beljur á svelli á vellinum því þeir voru í venjulegum takkaskóm. Ég skammaði þar einn leikmann en ég var í raun að skamma alla. Ég var líka með Alfreð og tók hann stundum út úr liðinu þegar hann þurfti spark í rassinn. Í einum leik í Keflavík byrjaði hann ekki inn á. Hann kom inn á seint í leiknum og skoraði og þegar hann fagnaði þá settist hann niður. Hann vildi láta vita að hann hefði byrjað á bekknum. Við hlæjum að þessu í dag, þetta var frábær hópur. Það var fallegt að þetta skyldi blómstra svona.“

Breytti til
Sumarið 2014 tók Ólafur við Nordsjælland í Danmörku en var vikið úr starfi einu og hálfu ári síðar. „Eftir tímabilið 2013 fann ég að ég þyrfti að breyta til. Ég sé það þegar ég horfi til baka. Sem þjálfari og persóna fékk ekki þá næringu sem ég þurfti. Ég hafði verið lengi á sama stað og unnið með sama fólkinu. Það var erfitt að færa félagið upp á næsta stall og ég var orðinn þreyttur.“

,,Það var skondið hvernig mér var vikið úr starfi í Nordsjælland. Það var í desember 2015, við vorum fyrir helgi að leggja drög að næsta ári. Það kom helgi og á þriðjudegi var ég síðan kallaður inn á skrifstofu og mér sagt að búið væri að selja félagið. Ég fékk að vita að þeir hygðust koma inn með sinn eigin þjálfara. Ég sagði þeim að það væri ekkert mál, ég skildi það vel og myndi gera það sama ef ég væri með klúbbinn. Það var gengið frá þessu, ég var á launum fram á sumar og ekkert vesen. Ég hefði ekki fengið starfið í Randers nema vegna þess að Nordsjælland gáfu mér góða umsögn, enda veit ég að sá viðskilnaður kom árangri ekkert við.“

Fann ekki traust og heiðarleika
Ólafur var án starfs í rúmt hálft ár áður en hann tók við Randers í dönsku úrvalsdeildinni sumarið 2016. Hann sagði svo starfi sínu lausu í haust. „Traust, heiðarleiki og trúverðugleiki skipta mig miklu máli. Ef ég finn ekki traust eða heiðarleika þá kvarnast úr þeim stoðum sem nauðsynlegar eru til að ná árangri. Yfirmaðurinn sem var þarna reyndist mér mjög vel en hann hafði of mörg verkefni. Stjórnin var þessi dæmigerða stjórn, menn sem láta hlutina ráðast af tilfinningum. Víða í stjórnum eru menn sem koma úr viðskiptalífi eða atvinnurekstri, þeir eru í sínum klúbbum, golfklúbbum, rauðvínsklúbbum og fleira. Þegar við höfðum fengið erfiða byrjun á mótinu þá létu þeir vita að það yrði haldinn stjórnarfundur og framtíð þjálfarans yrði rædd. Þá fóru viðvörunarbjöllur í gang, því það er aldrei látið vita að stjórnarfundur sé á næstu grösum. Þeim fannst þeir þurfa að láta vita að það væri fundur, á leikdegi.“

,,Fimm mínútum áður en rútan átti að fara þá luku þeir fundinu og ég fékk að vita að ég nyti stuðnings. Stjórninni fannst að eitthvað yrði að gera öðruvísi og mér fannst þeir þá vera farnir að skipta sér of mikið af því starfi þjálfarans. Þeir treystu mér en treystu mér samt ekki, þetta var eins og að fara til kærustunnar sinnar og segja „Ég elska þig en þú veist…“. Það getur ekkert verið neitt „en“, þarna á milli. Ég lét þetta eiga sig fram að næsta landsleikjafríi í byrjun október. Við áttum fínan kafla en ég fann hvernig þessi efi sat djúpt í mér. Ég fór þá á fund hjá yfirmanni mínum og sagði að ég gæti ekki verið besta útgáfan af sjálfum mér í þessu umhverfi. Það væri ekki gott fyrir mig, ekki fyrir leikmannahópinn eða alla sem kæmu að þessu. Ég sagði lausnina vera þá að ég viki – ég upplifði ekki 100 prósent traust. Það fékk svolítið á hann. Hann fór með þetta til stjórnar, svo var hringt í mig morguninn eftir. Stjórnarformaðurinn spurði mig af hverju ég hefði komist að þessari niðurstöðu. Ég hafði aldrei heyrt í honum og sagði honum að mér fyndist dæmigert, að hann gæfi sig á tal við mig eftir að ég hefði tilkynnt þeim þetta.“

,,Þegar fjölskyldunni líður ekki vel og trúnaðarbrestur er til staðar þá nenni ég ekki að hanga í starfi bara til að vera fá launin mín eða halda einhverjum titli – að vera þjálfari í efstu deild í Danmörku. Það verður svo mikið tómarúm í öllu sem maður gerir ef maður mætir eingöngu í vinnuna til að fá launin sín. Ég gat það ekki. Ég tók þessa ákvörðun, það var nauðsynlegt.“

Grásbrotlegt að vinna með Lennon
Sumarið 2016 var Steven Lennon framherji FH harðlega gagnrýndur fyrir Twitter-færslu sína þar sem hann virtist fagna því að Ísland væri að detta út af EM í Frakklandi. Ólafur svaraði honum fullum hálsi og í dag vinna þeir saman hjá FH. „Við tókumst bara í hendur og málinu var lokið. Ég sagði við hann að það væri grátbroslegt að við værum að fara að vinna saman. Við hreinsuðum þetta allt í fyrra. Mér fannst þetta ekki vera góð tímasetning hjá honum, eins og svo mörgum öðrum. Það er hægt að túlka hlutina á mismunandi hátt, ég hafði samband við hann fljótlega á eftir. Hann útskýrði fyrir mér hvað hann væri að meina, hann elskar íslenskan fótbolta en sem hlutlausum áhorfanda vildi hann meiri skemmtun. Honum fannst skemmtilegra að horfa á önnur lið og það er skoðun sem hann á rétt á. Bítlarnir voru ekkert frábærir tónlistarmenn en þeir hljómuðu frábærlega saman, það er það sama með íslenska landsliðið. Einstaklingsgæðin eru kannski ekkert frábær en þau hljóma vel saman. Á fyrstu æfingu brostum við hvor til annars og aðrir leikmenn höfðu gaman af. Þetta er ekkert vandamál, hann er hrikalega góður í fótbolta og algjör toppnáungi. Ég hef engar áhyggjur af þessu.“

Stoltur af leikmönnum sínum
Ólafur var hluti af teymi Íslands á Evrópumótinu í Frakklandi þar sem hann sá um að leikgreina Portúgal. Þar voru þrír leikmenn sem hann þjálfaði í Breiðabliki; Sverrir Ingi Ingason, Alfreð Finnbogason og Jóhann Berg Guðmundsson. „Ég var hrikalega stoltur af því að sjá hvað þeir sem voru þar; Sverrir Ingi, Jóhann Berg og Alfreð, eru orðnir flottir fótboltamenn. Ekki bara flottir leikmenn heldur líka góðir drengir. Þetta skiptir máli þegar maður hefur haft svona mikið með þá að gera ásamt öðrum, það er ekki bara ég sem þjálfaði þá. Mér finnst ég eiga pínulítið í þeim og þegar ég hitti þá aftur eru þeir sömu pungarnir og þegar þeir voru litlir. Bara betri í fótbolta og þroskaðari í lífinu, sumir komnir með börn og fjölskyldu. Þetta gefur mér orku. Ég vil búa til fleiri leikmenn sem gera svona hluti.Þetta eru ekki fjölskyldubönd en þegar menn eru svona mikið saman og maður er að þjálfa þá á mótunarárunum þá finnst manni maður eignast eitthvað aðeins í þeim. Ég er stoltur af því að hafa þjálfað þá,“ sagði Ólafur, en vill hann gerast landsliðsþjálfari einn daginn?

„Erfið spurning, ég held að það sé alveg ljóst. Kannski fæ ég tækifæri til þess. Þá er aldrei að vita hvað það verður, hvar það verður og hvernig það verður.“


desktop