Kemst Valur nær því að vinna þann stóra?

Pepsi-deild karla fer af stað á nýjan leik um helgina eftir landsleikjafrí en áhugavert verður að fylgjast með hvernig liðin hafa nýtt fríið. Hart er barist um Evrópustæti í deildinni en allt bendir til þess að Valur verði Íslandsmeistari. Þá er baráttan á botni deildarinnar afar hörð og áhugavert verður að sjá hvernig deildin þróast eftir þessa umferð.

KR – ÍBV – Laugardagur klukkan 14.00
KR er að berjast um sæti í Evrópukeppni að ári en liðið þarf að gefa vel í á lokasprettinum til að ná því. Á sama tíma er ÍBV að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og þarf að sækja sér stig á KR-völlinn á laugardag til að halda í vonina um að halda sér í deildinni.

Víkingur Ó. – FJölnir – Laugardagur klukkan 16.30
Ólafsvík er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni líkt og Fjölnir og því er um að ræða fallslag af bestu gerð. Bæði lið eru þremur stigum fyrir ofan fallsæti og verða því að hafa sigur til að losa sig frá pakkanum. Fjölnir vann sigur í síðasta leik á meðan lið Ólafsvíkur hefur tapað tveimur í röð.

Víkingur R. – Stjarnan – Sunnudagur 17.00
Víkingur tekur á móti Stjörnunni á sunnudag en heimamenn sigla um miðja deild á meðan Stjarnan berst fyrir því að ná sér í Evrópusæti. Stjarnan þarf að hafa sig alla við til að ná Evrópusæti en allt annað en Evrópusæti væru mikil vonbrigði í Garðabæ.

FH – Grindavík – Sunnudagur 17.00
Það hafa verið mikil vonbrigði með spilamennsku FH á þessu tímabili, liðið er að berjast við að ná Evrópusæti og spilamennskan hefur ekki verið góð. Grindavík hefur komið á óvart en fjarað hefur undan liðinu síðustu vikur. FH þarf sigur til að halda sér í baráttunni um Evrópusætið.

ÍA – KA – Sunnudagur 17.00
Skagamenn eiga sinn síðasta möguleika á að halda sér í deildinni þegar KA kemur í heimsókn, gestirnir hafa rétt úr kútnum undanfarið og unnið tvo sigra í röð til að koma sér úr fallbaráttu.

Valur – Breiðablik – Sunnudagur 19.15
Valur er á góðri leið með að verða Íslandsmeistari og sigur á Breiðabliki færi langt með að tryggja liðinu þann stóra, liðið hefur spilað frábærlega í sumar og mætir nú liði Breiðabliks sem hefur að litlu að keppa. Það verður áhugavert að sjá hvernig Valur höndlar pressuna sem nú er á liðinu.


desktop