Milos: Margir litlir hlutir sem mér leist ekki á

Ozegovic (t.h)

Milos Milojevic ræddi við Vísi.is í kvöld eftir þær óvæntu fréttir að hann hefði látið af störfum hjá Víkingi Reykjavík.

Milos lenti upp á kant við stjórn Víkings og eftir fund í morgun var lausnin sú að Milos myndi yfirgefa félagið.

Þessi skemmtilegi þjálfari viðurkennir það að niðurstaðan sé leiðinleg en að þetta hafi verið það besta í stöðunni.

„Það er leiðinleg niðurstaða að fara frá félagi sem maður hefur verið hjá í níu og hálft ár. En svona er fótboltinn og þetta starf. Einhvern tímann þurfa leiðir að skilja þótt þetta hafi ekki verið besti tíminn,“ sagði Milos við Vísi.is.

„Ég er mikill prinsippmaður og vil að allir vinni sína vinnu og í sínum vinnuramma. Ef það gengur ekki upp er ég tilbúinn í einhverja svona fimleika.“

„Þegar ég var fyrst ráðinn aðstoðarþjálfari með Óla Þórðar var ákveðin stefna sem ég vann eftir. Ég er svo kröfuharður við sjálfan mig og alla hina.“

,,Þetta er flott félag en allir í þjálfarateyminu eiga að vita sína vinnu og hvernig þeir eiga að hegða sér í leikjum og gagnvart dómurum og öllum.“

„Ef það er ekki þannig er ég ekki sáttur. Ef stjórnin er ekki tilbúin að taka á málum þarf ég því miður að hætta. Þetta voru margir litlir hlutir sem mér leist ekki alveg á.“

Milos veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en er opinn fyrir öllu þessa stundina hvort sem það sé að þjálfa hér á landi eða erlendis.

„Ég er opinn fyrir öllu. En öll liðin eru með þjálfara fyrir utan okkur og Blika og þeir eru í góðum höndum hjá sínu þjálfarateymi.“

,,Ég er ekki maður sem sækist eftir starfi en ef einhver hringir í mig er ég opinn. Ég er þjálfari og stefni að því vera þjálfari, hvort sem það er á Íslandi eða erlendis. Það kemur í ljós.“


desktop