Norrköping vill kaupa Hólmbert af KR – Fer Gary Martin?

Jónas Kristinsson framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar KR segir að félagið eigi von á tilboði frá Norrköping í Hólmbert Aron Friðjónsson framherja félagsins.

Samkvæmt heimildum 433.is hefur þó fyrsta tilboðið nú þegar borist og KR hafnað því. Viðræður eru enn í gangi og gætu félögin náð saman.

Hólmbert skoðaði aðstæður og æfði með Norrköping á dögunum og vill sænska félagið fá hann.

,,Við eigum von á tilboði, við skoðum hvort það sé álitlegt,“ sagði Jónas framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar KR við 433.is.

Hólmbert kom til KR síðasta sumar frá skoska félaginu Celtic, KR fékk hann frítt en Celtic fær hluta af kaupverðinu verði Hólmbert seldur.

Hólmbert er ekki eini framherjinn sem gæti yfirgefið KR því enn á ný eru farnar sögur á kreik um að enski framherjinn, Gary Martin gæti yfirgefið félagið. Víkingar í Reykjavík eru sagðir hafa átt í viðræðum við KR.

,,Ég get ekki staðfest það heldur, það er alltaf eitthvað í gangi,“ sagði Jónas um framtíð Gary Martin en hann var staddur í París.

KR fékk tvo nýja leikmenn í sínar raðir í síðustu viku, danska framherjann Morten Beck Anderson og danska kantmanninn Kennie Chopart.


desktop