Ólafur tók stjórnina hjá Val – Ég sagði Berki að ég myndi ráða

„Ég tel að við höfum verið besta liðið í sumar, ég er ekki í nokkrum vafa um það,“ segir Ólafur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Vals, en um síðustu helgi vann Valur Pepsi-deildina og vann þar með sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í tíu ár. Ólafur sem er 60 ára gamall er afar reynslumikill þjálfari og er í hópi bestu þjálfara sem Ísland hefur átt.

Þjálfaraferill Ólafs hefur verið langur og farsæll en hann hófst árið árið 1982 þegar hann stýrði Einherja. Síðan þá hefur Ólafur farið víða, hann hefur í þrígang þjálfað Skallagrím og þá hefur hann í tvígang stýrt FH og Haukum. Hjá FH voru hans bestu ár en hann þjálfaði liðið frá 2003 til 2007 og vann fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögu félagsins árið 2004. Ólafur tók síðan við landsliðinu árið 2007 og stýrði því þangað til undir lok árs 2011. Ólafur var svo í tvö ár hjá Haukum eftir það og tók svo við Val fyrir tímabilið 2015 og hefur unnið þrjá stóra titla á þremur árum. Fyrstu tvö árin undir stjórn Ólafs varð liðið bikarmeistari og í ár var komið að því að vinna þann stóra.

Meira:
Leikmenn vita af því þegar Óli Jó ætlar með bombur í fjölmiðla
Óli Jó: Ein myndavél og lýsandinn situr í Reykjavík

Áður en Ólafur tók við starfinu þurfti hann að láta menn á Hlíðarenda vita að hann myndi taka allar ákvarðanir en ekki stjórnarmenn, hann og Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar, höfðu átt í deilum áður en Ólafur tók við Val og það þurfti að slíðra sverðin.

„Ég var alveg meðvitaður um að ég þyrfti að breyta hlutunum hérna, við sögðum þessum mönnum hvernig við vildum gera hlutina og hvernig þyrfti að gera þá. Við myndum ráða því. Ég og Börkur höfðum lent í deilum einu sinni út af einhverju sem í raun skipti ekki neinu máli, það gerðist fyrir nokkrum árum. Það andaði köldu á milli okkar, við heilsuðumst alltaf en það var ekki meira en það,“ sagði Ólafur í samtali við 433.is.

,,Það er svo gaman að segja frá því að þegar ég fór á fyrsta fundinn með þeim þá var ég spurður hvort ég gæti starfað með Berki. Ég svaraði því á móti að það snerist ekki um það, ég sagði að það snerist um hvort Börkur gæti starfað með mér, því að ég ætlaði að ráða hlutunum. Það hefur gengið frábærlega.“

Ólafur segir að það sé frábært að vinna með Berki og hans sé ekki síðri formaður en Jón Rúnar Halldórsson hjá FH.

,,Börkur er frábær gæi. Það eru nokkrir klúbbar sem eiga svona mann eins og Börk, maður sem vinnur mikið í sjálfboðavinnu og er nánast til í að deyja fyrir félagið sitt. Þessir gæjar eru ekkert smá mikilvægir. Ég hef verið með Jóni Rúnari [Halldórssyni, formanni knattspyrnudeildar FH] líka og ég get alveg sagt að Börkur er ekki síðri. Börkur sækir ekki jafn mikið í athyglina eins og Jónsi.“

,,Ég sagði Berki að ég myndi ráða hvernig hlutirnir yrðu, það hjálpar svo mikið að vera með Bjössa hérna sem er Valsari og þekkir alla hérna og allir sem tengjast Val þekkja hann. Það hjálpaði líka, Bjössi gat stigið á menn sem eru í kringum þetta. Það er ekki bara í Val sem hlutirnir eru svona, í öllum félögum eru menn sem vilja ráða öllu. Svo ef hlutirnir ganga ekki upp þá eru þeir alltaf með lausnir á því, það verður þannig áfram. Þessi þrjú ár hjá Val hafa gengið mjög vel, það er aldrei erfitt þegar vel gengur. Það er mjög einfalt. Ég hef þjálfað síðan 1979 og hef oft lent í mótlæti, það hafa allir sem hafa tekið svona starf að sér lent í mótlæti. Ég læri af því, ég hef aldrei efast um mína kunnáttu. Það hef ég aldrei gert.“


desktop