Óli Jó: Blaðamenn þorðu ekki í málið

Ólafur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Vals gerði liðið að Íslandsmeisturum um síðustu helgi og vann þar með sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í tíu ár. Ólafur sem er 60 ára gamall er afar reynslumikill þjálfari og er í hópi bestu þjálfara sem Ísland hefur átt.

Þjálfaraferill Ólafs hefur verið langur og farsæll en hann hófst árið árið 1982 þegar hann stýrði Einherja. Síðan þá hefur Ólafur farið víða, hann hefur í þrígang þjálfað Skallagrím og þá hefur hann í tvígang stýrt FH og Haukum. Hjá FH voru hans bestu ár en hann þjálfaði liðið frá 2003 til 2007 og vann fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögu félagsins árið 2004. Ólafur tók síðan við landsliðinu árið 2007 og stýrði því þangað til undir lok árs 2011. Ólafur var svo í tvö ár hjá Haukum eftir það og tók svo við Val fyrir tímabilið 2015 og hefur unnið þrjá stóra titla á þremur árum. Fyrstu tvö árin undir stjórn Ólafs varð liðið bikarmeistari og í ár var komið að því að vinna þann stóra.

Meira:
Ólafur tók stjórnina hjá Val – Ég sagði Berki að ég myndi ráða
Leikmenn vita af því þegar Óli Jó ætlar með bombur í fjölmiðla
Óli Jó: Ein myndavél og lýsandinn situr í Reykjavík

Árið 2013 var Ólafur að þjálfa Hauka og var liðið mjög nálægt því að fara upp í efstu deild. Það eina sem stoppaði það var 16-0 sigur Víkings R. á Völsungi í næstsíðustu umferð.

Víkingur fór upp á betri markatölu en Haukar sátu eftir með sárt ennið. Ólafur segir að allt hafi verið ólöglegt við þetta en blaðamenn ekki þorað í málið.

„Hauka-tímabilið var mjög fínn tími, það er náttúrlega rannsóknarefni fyrir blaðamenn, sem þeir þorðu ekki að fara í frekar en annað, af hverju Haukar fóru ekki upp í efstu deild í fótbolta. Það var allt ólöglegt við þetta sem hægt var, blaðamenn þorðu ekki að fara í það mál,“ sagði Ólafur um málið í samtali við 433.is


desktop