Plús og mínus – 19 ára bið Eyjamanna á enda

Úrslitaleikur Borgunarbikars karla fór fram í dag er lið ÍBV mætti FH á Laugardalsvelli fyrir framan fjölda fólks.

ÍBV sló Stjörnuna út í undanúrslitum og komst þannig í úrslitin en FH lagði Leikni Reykjavík 1-0.

Það var einnig bara eitt mark skorað í leiknum í dag en það gerði framherjinn reynslumikli Gunnar Heiðar Þorvaldsson.

Leikurinn í dag var fjörugur og fengu áhorfendur mikið fyrir sinn snúð en mörkin voru þó ekki mörg.

Gunnar Heiðar skoraði eina mark leiksins á 37. mínútu leiksins og reyndist það nóg til að tryggja Eyjamönnum bikarinn.

Plús og mínus er hér að neðan.

Plús:

Það var frábært að horfa á Gunnar Heiðar Þorvaldsson í leiknum, með mikla reynslu og hélt boltanum vel. Skoraði svo markið dýrmæta.

Um er að ræða fyrsta bikar ÍBV í karlaflokki í 19 ár, biðin hefur verið löng fyrir Eyjamenn sem fagna langt fram eftir nóttu.

Stuðningsmenn ÍBV voru hreint magnaðir á vellinum, sungu allan leikinn og hjálpuðu sínum mönnum að koma bikarnum til Eyja.

Varnarleikur Eyjamanna var til fyrirmyndar, skipulagið og þær breytingar sem Kristján Guðmundsson gerði skiluðu árangri.

Mínus:

Slök spilamennska FH í sumar hélt áfram í dag, of margir leikir þar sem FH hefur ekki náð flugi.

Pétur Viðarsson var sofandi í marki Eyjamanna í leiknum, missti Gunnar Heiðar fram fyrir sig og það reyndist dýrt.

Sóknarleikur FH framan af leik var dapur, hann var of flatur framan af leik.


desktop