Plús og mínus – Atvinnumennskan bíður Kristjáns

Kristján Flóki Finnbogason tryggði FH þrjú stig er liðið heimsótti Breiðablik í Pepsi deild karla í kvöld.

Flóki kom FH í 1-0 með eina marki fyrri hálfleiksins eftir fyrirgjöf frá Bergsveini Ólafssyni.

Gísli Eyjólfsson jafnaði fyrir heimamenn eftir rúman klukkutíma en fimm mínútum síðar skoraði Kristján Flóki aftur.

Sigurinn skýtur FH í 3 sæti deildarinnar með 17 stig en Blikar eru í áttunda sæti með 11 stig.

Plús og mínus er hér að neðan.

Plús:

Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Breiðabliks var hreint magnaður í leiknum, 41 árs en í frábæru standi.

Þórarinn Ingi Valdimarsson kom að miklum krafti inn í lið FH, hefur fengið fáa séns í sumar en kom sterkur inn í dag.

Bergsveinn Ólafsson var flottur sem hægri bakvörður í dag, staða sem hann er ekki svo vanur að spila en fyrirgjöfin í marki Kristjáns Flóka var augnakonfekt.

Kristján Flók Finnbogason er að stimpla sig inn sem einn besti framherji Pepsi deildarinnar, getur skorað mörk í öllum regnbogans litum. Atvinnumennskan bíður með sama áframhaldi.

Það eru góð tíðindi fyrir Blika ef Oliver Sigurjónsson er að ná fullri heilsu, er liðinu afar mikilvægur.

Mínus:

FH-ingar gáfu mikið eftir þegar á leið í leiknum, öll orkan sem liðið setti í fyrri hálfleikinn virtist tæma tankinn hjá mörgum leikmönnum liðsins.

Emil Pálsson hefði átt að pressa Gísla Eyjólfsson betur þegar Gísli jafnaði leikinn, Gísli fékk mikið pláss og átti frábært skot sem Gunnar Nielsen gat lítið gert við.

Varnarleikur Michee Efete í öðru marki FH var hræðilegur, hljóp úr vörninni og hafði svo ekki neinn áhuga á að koma sér til baka í stöðu.


desktop