Plús og mínus – Ekki að sjá að Blikar sakni Olivers og Höskulds

Breiðablik tók á móti Fjölni í 13. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld en leiknum lauk með 2-1 sigri Blika.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var markalaus en Martin Lund kom Blikum yfir strax í upphafi síðari hálfleiks.

Marcus Solberg jafnaði metin fyrir Fjölni á 60 mínútu áður en Martin Lund skoraði sigurmark Blika á 75 mínútu og lokatölur því 2-1 fyrir Blika.

Plúsa og mínusa úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Plúsar:

Kristinn Jónsson er kominn aftur til Breiðabliks og byrjaði leikinn í dag. Hann spilaði í 55 mínútur og leit vel út í dag og á eftir að verða mikilvægur í þeirri baráttu sem Breiðablik stendur frammi fyrir.

Þórður Ingason heldur áfram að vera mikilvægur fyrir Fjölni og átti góðar vörslur í þessum leik. Vissulega átti sín móment en öruggur í dag.

Blikar spiluðu það fallegan fótbolta í dag að það fer í plúsinn. Mikið rætt um að það hafi verið slæmt hjá þeim að selja Höskuld og Oliver en í dag fannst mér ég sjá þeirra besta leik þegar kemur að samspili. Tek það samt fram að lítið gerðist oft á köflum við markið en nóg var það til að vera hættulegir í dag. Með tilkomu Kristinns í þessu hlutverki ætti að vera gaman að fylgjast með Blikum í seinni umferðinni.

Vörnin hjá Fjölni var eins og oft áður góð í dag gegn erfiðum blikum. Þeir voru ástæðan að ekki fór verr í dag. Hans Viktor og Torfi fá plús í dag.

Martin Lund átti að mínu mati sinn langbesta leik í búning Breiðabliks í dag. Það er löngu tímabært enda vita allir að hann er á góðum degi einn af betri leikmönnum deildarinnar.

Blikar með þessum sigri og spilamennsku gætu klárað þetta mót vel og jafnvel strítt liðunum í evrópusætisbaráttu. Allt með fyrirvara en þeir litu gríðarlega vel út í dag.

Damir og Elfar fá einnig plús í dag. Undirritaður er ekki frá því að þeir séu besta miðvarðaparið í deildinni ef þeir halda áfram þessari spilamennsku. Þeir ná gríðarlega vel saman og lítið sem kemst framhjá þeim.

Mínusar:

Fjölnir tapar hér í dag og er því að stimpla sig mögulega í fallbaráttu. Í dag sást samt að þetta er lið sem á alls ekki að falla en þeir þurfa að fara nýta sín færi betur.

Það sýndi sig í dag að þessi lið hafa skorað lítið á tímabilinu. Of oft sem að liðin spiluðu sig vel í gegnum varnirnar en ekkert skot eða færi leit dagsins ljós. Mögulega er fréttaritari harður að nefna þetta en það þarf klárlega að betrumbæta þessar stöður.

Á sama tíma og það er stór plús að fá Kristinn Jónsson aftur þá verður að nefna það að Milos virðist hafa lagt upp fyrirgjafir frá köntunum sem fengu að vera frekar frjálsir í dag en það gerðist alltof oft í dag að enginn var í teignum. Gríðarlega slappt.

Breiddin hjá þessum tvem liðum er ekki næginlega góð og mögulega ástæðan fyrir þeirra gengi í sumar. Inná koma menn sem eru mögulega ekki nógu hættulegir í efstu deild.

Bojan Stefán átti slappan leik í dag og nýttu Blikar sér það vel. Átti erfitt með að koma bolta á andstæðing og skapaði oft hættu fyrir blika með slöppum sendingum til baka.


desktop