Plús og mínus – Vildum meira fjör

Valur vann Víking Reykjavík í Pepsi-deild karla í kvöld en liðin áttust við á Víkingsvelli.

Aðeins eitt mark var skorað í kvöld en það gerði Nicolas Bogild fyrir gestina í síðari hálfleik.

Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum.

Plús:

Valsmenn fá plús fyrir það að klára leikinn. Var oft erfitt en það tókst á endanum.

Patrick Pedersen er kominn aftur í lið Valsmanna sem er frábært fyrir á rauðu. Kann svo sannarlega að skora.

Víkingar gáfu Valsmönnum leik eins og við var að búast. Baráttan var til staðar og bæði lið hefðu getað stolið þessu.

Andri Adolphsson átti tilþrif leiksins áður en hann lagði upp mark leiksins á Nicolas Bogild. Virkilega fallegt!

Mínus:

Víkingar hafa bætt sig undir stjórn Loga en það er enn eins og það vanti eitthvað aðeins meira.

Evrópudraumurinn er alls ekki úti fyrir Víkinga en þeir þurfa fleiri sigra. Einn sigur úr síðustu fjórum leikjum.

Fjörið mátti vera meira. Það var lítið um alvöru færi og leikurinn var langt frá því að vera opinn.


desktop