Pressan á FH-ingum fyrir bikarúrslitin

Einn stærsti knattspyrnuleikurinn á hverju sumri fer fram á laugardag þegar ÍBV og FH eigast við í bikarúrslitum karla en leikurinn fer fram á Laugardalsvelli klukkan 16.00. Mikil eftirvænting er fyrir leiknum en FH er sigurstranglegri aðilinn þegar gengið verður út á Laugardalsvöll. Saga Eyjamanna í bikarnum er þó stærri en FH-inga en FH, sem hefur verið besta lið Íslands frá árinu 2004, hefur aðeins unnið bikarinn í tvígang, í Kaplakrika telst það slakur árangur og vilja menn ná í bikarinn í ár. ÍBV fékk síðast bikar í karlaknattspyrnu árið 1998 þegar liðið vann bæði deild og bikar, 19 ára eyðimerkurgöngu gæti því lokið á laugardag.

FH-ingar vilja fá bikarinn í Krikann
FH varð síðast bikarmeistari árið 2010 en síðan þá hefur liðið ekki náð merkilegum árangri í bikarnum, liðið komst þó í undanúrslit í fyrra en ÍBV hafði þar betur áður en Eyjamenn töpuðu síðan gegn Val í úrslitum. „Það er hungur í Krikanum, við vorum auðvitað svekktir í fyrra að detta út í undanúrslitum og fá þar með ekki tækifæri til að taka þátt í þessum leik sem er sá stærsti og skemmtilegasti á hverju ári,“ sagði Þórarinn Ingi Valdimarsson, kantmaður FH, um leikinn en þessi öflugi leikmaður ólst upp í Vestmannaeyjum og er því að mæta uppeldisfélagi sínu.

Býst við að fá að heyra það
Eins og fyrr segir ólst Þórarinn upp hjá ÍBV og flestir vinir hans styðja liðið, hann býst við að fá einhverjar pillur fyrir leik. „Bikarleikir eru alltaf mjög erfiðir, við höfum ekki náð flugi í bikarnum síðustu ár en núna erum við komnir í úrslitaleikinn og ætlum að reyna að taka hann með trompi, okkur finnst vera kominn tími á okkur að klára þennan bikar. Þetta leggst ótrúlega vel í mig, það er gaman að fara inn í svona leik. Ég vona að það verði vel mætt á völlinn, við duttum út gegn ÍBV í undanúrslitum í fyrra, en núna viljum við standa í lappirnar og klára verkefnið. Það er alltaf gaman fyrir mig að mæta ÍBV, þarna eru margir sem ég þekki og það verður gaman að mæta þeim á Laugardalsvelli. Ég er ekki byrjaður að fá neinar svakalegur pillur frá vinunum en ætli það fari ekki að færast í aukana, þeir geta látið mig heyra það eins og þeir vilja en þeir ná ekki inn í hausinn á mér.“

Pressan í bikarnum
Það er þekkt stærð í fótboltanum að bikarleikir eru erfiðir, Eyjamenn hafa til að mynda ekki náð flugi í deildinni en verið öflugir í bikarnum. FH-ingar eru meðvitaðir um þetta og ætla ekki að láta það trufla sig að liðið er líklegra til sigurs og pressan er á þeim. „Það er alltaf pressa á þér þegar þú ert í FH að vinna leikina, í bikarnum er þetta bara öðruvísi og leikirnir þar eru alltaf erfiðir. Það er öðruvísi stemning í bikarnum en í deildinni. Lið koma öðruvísi inn í leikina, þú ert með bakið upp við vegg fyrir leik og ef þú tapar þá er partíið einfaldlega búið. Leikmenn vita af þessu fyrir leik og því verður oft öðruvísi stemning, það er mikil barátta og ákefð í svona leikjum.“

Álag á FH-ingum
FH-ingar eru að keppa á þremur stöðum þessa dagana, liðið vann Val í deildinni í vikunni og kom sér þá aftur í baráttu efstu liða um sigur í Pepsi-deildinni, þá eru FH-ingar einnig í umspili um laust sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þar sem liðið mætir Braga frá Portúgal. Síðan er bikarúrslitaleikurinn fram undan. „Það er búið að vera mikið álag á okkur undanfarið, þetta er það sem FH hefur unnið að í mörg ár, og gert, að keppa á öllum stöðum og berjast þar. Við viljum ná að komast lengra í Evrópu og það væri algjör draumur að komast áfram gegn Braga. Núna er hugur okkar bundinn við bikarleikinn og sigur þar gæti vonandi kveikt mikið líf í okkur fyrir lokasprettinn. Við erum með fínan hóp til að dreifa álaginu en það vilja allir spila bikarúrslitaleikinn, maður vonast eftir því að vera með frá byrjun en það er undir Heimi Guðjónssyni (þjálfara FH) komið hvort það verði.“

Komnir í baráttuna
FH vann topplið Vals á þriðjudag í Pepsi-deildinni og getur nú leyft sér að dreyma um að vinna deildina þriðja árið í röð, sigurinn kemur FH sex stigum á eftir Val og liðin eiga átta leiki eftir. „Þetta var mjög flottur leikur gegn Val, ef við ætluðum að eiga einhverja von í deildinni þá urðum við að vinnan þennan leik. Við erum góðir undir pressu og leikirnir sem eru eftir í deildinni eru þannig leikir að við megum ekki misstíga okkur, það kemur okkur inn í þennan pakka sem er á toppnum. Við vitum að Valur er með frábært lið og það verður erfitt að ná þeim en við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að veita þeim samkeppni þangað til tímabilið er á enda.“


desktop