Þungar ásakanir Ólafs – Segir þær algjört kjaftæði

Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals ber leikmenn Völsungs þungum sökum í viðtal í Návíginu á Fótbolta.net í dag.

Ólafur er að ræða um sumarið 2012 þegar Víkingur vann 16-0 sigur á Völsungi í næst síðustu umferð. Ólafur var að þjálfa Hauka en liðið fór ekki upp vegna markatölu og þá út af þessum leik.

,,Það hefur enginn blaðamaður þorað að fara í þetta vegna þess að það hentar kannski ekki. Ég vil meina að einhverjir hafi verið búnir að semja um úrslitin í þessum leik. Tveir leikmenn Völsungs (Guðmundur Óli og Hrannar Björn Steingrímssynir) eru reknir út af í fyrri hálfleik. Annar fær gult spjald fyrir eitthvað brot, labbar í burtu og fyrst að hann fékk ekki rautt þá sneri hann sér við og sagði dómarnum að þegja eða halda kjafti. Hvað hélt hann að myndi gerast þá? Þetta var ekkert eðlilegt. Við fórum reyndar síðan og unnum Völsung 7-0 í lokaleik en Víkingur fór upp á markatölu,“ sagði Ólafur í viðtalinu á Fótbolta.net.

Hrannar Björn Steingrímsson leikmaður KA í dag svaraði þessum ásökunum Ólafs í Akraborginni á X977 í dag.

„Þetta er argasta kjaftæði. Ég get ekki sagt mikið meira um það,“ sagði Hrannar í Akraborginni.

„Án þess að gagnrýna of mikið þá sem voru með mér í þessu liði, þá hefði hópurinn seinni hlutan af mótinu getað fallið úr þriðju deild. Liðið var það slakt.“

„Að eitthvað veðmálsvindl hafi verið hjá mér, bróður mínum eða einhverjum öðrum er bara kjaftæði,“

Haraldur Haraldsson formaður Víkings segist hafa kvartað til KSÍ vegna ummmæla Ólafs Jóhannesonar en þessi ummæli Ólafs komu einnig fram í viðtali við 433.is í september.


desktop