Umfjöllun: 10 Stjörnumenn komu til baka gegn Fram

Umfjöllun: 10 Stjörnumenn komu til baka gegn Fram

Stjarnan og Fram mættust í kvöld í stórskemmtilegum leik á teppinu í Garðabæ. 

Stjarnan byrjaði leikinn töluvert betur og komust í nokkur fín færi áður en að Garðar Jóhannsson skoraði eftir 28 mínútur en hann kláraði með skemmtilegri vippu yfir Ögmund í marki Fram eftir frábæra sendingu frá Veigari Páli. Stjörnumenn voru töluvert nær því að bæta við en Fram að jafna það sem eftir lifði hálfleiks en staðan í leikhléi var 1-0. En mikið tempó var í leiknum og var hann mjög góð skemmtun. 

Seinni hálfleikurinn verður að teljast með betri hálfleikjum á tímabilinu en þá voru skoruð fjögur mörk og eitt rautt spjald fór á loft. Aron Bjarnason skoraði sitt fyrsta mark í Pepsi deildinni en hann komst einn inn fyrir eftir góða sendingu frá Sam Hewson á miðjunni. Aron fékk allann tímann í heiminum einn gegn Ingvari í markinu og kláraði færið einkar vel og staðan orðin 1-1. 

Aðeins sjö mínútum síðar voru Framarar komnir yfir. Hólbert Aron tók þá aukaspyrnu af um 25 metra færi sem endaði í stönginni, bakinu á Ingvari í markinu og þaðan fór boltinn inn. Stórglæsileg spyrna frá Hólberti en markið er skráð sem sjálfsmark Ingvars. Vont varð verra fyrir Stjörnumenn aðeins tveimur mínútum síðar en þá fékk Atli Jóhannesson sitt annað gula spjald og þar með rautt. Stjarnan manni færri og marki undir. 

Það virtist heldur betur kveikja í Garðbæingum en þeir leiku á alls oddi og snéru taflinu sér í vil með tveimur mörkum, Martin Rauschenberg jafnaði leikinn með skalla eftir aukaspyrnu og Ólafur Karl Finsen skoraði síðan sigurmarkið þegar sex mínutur voru til leiksloka. Lokatölur 3-2 í rosalegum leik. 


desktop