Umfjöllun: FH-ingar klaufar að klára ekki Blika

FH – Breiðablik:
0-1 Tómas Óli Garðarsson (´3)
1-1 Hólmar Örn Rúnarsson (´35)

FH og Breiðablik mættust í lokaleik 1. umferðar Pepsi deildar karla á Kaplakrikavelli í kvöld.

Völurinn var færður yfir í Hafnafjörð þar sem heimavöllur Blika er óleikfær. Krikinn var hinsvegar ekki í góðu ástandi og ljost að hann líkt og margir vellir landsins eiga langt í land.

Róbert Örn Óskarsson markvörður FH byrjaði en hann hafði verið að glíma við meiðsli fram að móti. Hjá Blikum byrjaði Stefán Gíslason en hann kom heim úr atvinnumennsku í vetur, fyrsti leikur Stefáns hér heima í tíu ár.

Blikar byrjuðu að krafti og það skilaði sér í marki á þriðju mínútu. Páll Olgeir Þorsteinsson sendi þá boltann á Tómas Óla sem virtist rangstæður. Línuvörðurinn flaggaði hinsvegar ekki og Tómas kláraði færi sitt snyrtilega.

Eftir markið tóku FH-ingar öll völd á vellinum og þeir létu þau í raun og veru aldrei af hendi. Mörkin létu þó á sér standa og þrátt fyrir nokkur góð færi var það ekki fyrr en á 35 mínútu sem FH-ingar jöfnuðu.

Þar var að verki Hólmar Örn Rúnarsson sem skallaði knöttinn í netið. Ólafur Páll Snorrason tók spyrnuna frá vinstri. Hana skallaði Pétur Viðarsson á kollinn á Hólmari Erni sem skoraði.

Ólafur Kristjánsson gerði tvær breytingar í hálfleik. Útaf fóru Páll Olgeir og Guðjón Pétur Lýðsson en sá síðarnefndi átti slakan dag.

FH-ingar voru sterkari í síðari hálfleik og voru oft nálægt því að skora sigurmarkið en það tókst ekki.

Jafntefli niðurstaða í leik þar sem FH var sterkari aðili leiksins en liðinu mistókst að nýta þá yfirburði sem liðið hafði.

Blikar voru sterkari til baka þegar á leið og koma Elfar Helgasonar í vörnina virtist auka traustið í varnarleik. Auk þess sem miðjan styrktist þegar Stefán Gíslason lék þar í síðari hálfleik.


desktop