Á Liverpool að reka Rodgers? – Fimm raunhæfir arftakar

Pistill eftir Bjarna Helgason:

Stuðningsmenn Liverpool virðast vera að missa þolinmæðina gagnvart Brendan Rodgers, stjóra Liverpool, en félagið beið lægri hlut gegn Aston Villa í undanúrslitum FA-bikarsins í dag á Wembley, 1-2.

Þetta var síðasta tækifæri Liverpool til þess að vinna bikar á þessu tímabili en félagið hefur ekki unnið titil síðan árið 2012, þegar félagið tryggði sér enska deildarbikarinn undir stjórn Kenny Dalglish.

Deildarbikarinn hefur hins vegar ekki alltaf þótt merkilegasti bikarinn í Evrópu en að honum undanskildum vann Liverpool síðast alvöru bikar árið 2006 þegar félagið landaði FA-bikarnum undir stjórn Rafa Benitez.

Rodgers hefur verið með liðið í þrjú ár og komst félagið ansi nálægt því að vinna ensku úrvalsdeildina í fyrra en brást bogalistin á síðustu stundu og Manchester City endaði á að vinna deildina með tveggja stiga mun.

Á síðustu 20 árum hefur enginn stjóri náð að halda uppi stöðugleika hjá Liverpool, þar með talinn Rodgers sjálfur, en liðið spilaði, skuldlaust, besta fótboltann í Evrópu með Luis Suarez í fararbroddi á síðasta tímabili. Brotthvarf hans virðist hafa haft ansi djúpstæð áhrif á allan leik Liverpool og þá sér í lagi Brendan Rodgers sem virðist ekki finna neina lausn á sóknarleik liðsins.

Þá hefur varnarleikur liðsins vægast sagt verið dapur en mennirnir sem Rodgers hefur keypt til þess að binda varnarleik liðsins saman hafa engan veginn staðið undir væntingum, þar ber hæst að nefna Dejan nokkurn Lovren.

Lovren kostaði félagið 20 milljónir punda en fyrir utan þá staðreynd að hann er rúinn öllu sjálfstrausti eftir skelfilega frammistöðu fyrr í vetur þá virðist hann einfaldlega ekki hafa gæðin til þess að stjórna varnarleik liðsins.

Kaup Rodgers í gegnum tíðina hafa verið harðlega gagnrýnd. Þeir Philippe Coutinho og Daniel Sturridge virðast vera einu mennirnir sem stjórinn hefur keypt sem hafa staðið undir væntingum en hann hefur eytt 215 milljónum punda í leikmenn frá árinu 2012.

Hvort dagar Rodgers hjá Liverpool séu taldir verður að koma í ljós en það er deginum ljósara að mikil pressa er á stjóranum um þessar mundir. Ég tók því saman fimm stjóra sem gætu tekið við liðinu af Rodgers, fari svo að hann verði látinn taka pokann sinn í sumar.

Klopp
Jurgen Klopp

Klopp hefur stýrt liði Dortmund í þýsku Bundesligunni undanfarin sjö ár en hann gaf það út á dögunum að hann hygðist hætta með liðið í lok tímabilsins. Klopp þekkir það vel að byggja upp lið sín frá grunni en hann gerði frábæra hluti með bæði FSV Mainz og Dortmund þar sem lítið fjármagn var til staðar.

Hjá Liverpool hefði hann talsvert meira fjármagn á milli handanna og þá hefur hann úr að skipa sterkum leikmönnum inn á milli. Þá hefur stjórinn sannað snilli sína á leikmannamarkaðnum en Marco Reus, Robert Lewandowski og Mats Hummels eru allt dæmi um leikmenn sem að Klopp fékk til Dortmund á sínum tíma og bjó til heimsklassa leikmenn úr þeim.

Klopp þekkir það að vinna titla verandi „litla liðið“ í baráttunni. Frábær kostur fyrir Liverpool.

Benitez
Rafa Benitez

Benitez þarf vart að kynna fyrir stuðningsmönnum Liverpool en hann þjálfaði liðið á árunum 2004-2010. Hann er enn elskaður af stuðnignsmönnum liðsins og ekki að ástæðulausu en félagið fór aftur að vinna titla þegar Spánverjinn tók við liðinu.

Benitez vann Meistaradeild Evrópu með liðið árið 2005 og þá vann félagið FA-bikarinn undir hans stjórn árið 2006. Það sem gerði dvöl Benitez hjá Liverpool einna erfiðasta voru stanslausar erjur við eigendur liðsins á seinni árum hans hjá félaginu. Erjurnar gerðu það m.a að verkum að peningar hans til leikmannakaupa voru af skornum skammti. Þegar Benitez fékk hins vegar peninga til að eyða gerði hann vel en Xabi Alonso, Fernando Torres og Javier Mascherano eru allt menn sem hann fékk til félagsins.

Benitez nær árangri hvar sem hann kemur og það er deginum ljósara að með réttu eigendurna sér við hlið þá gæti hann gert mjög jákvæða hluti með félagið, aftur.

simeone
Diego Simeone

Simeone hefur stýrt liði Atletico Madrid frá árinu 2011 en liðið varð spænskur meistari undir hans stjórn á síðasta keppnistímabili, eitthvað sem á ekki að vera hægt þegar þú ert að keppa við lið eins og Real Madrid og Barcelona. Þá kom hann liðinu í úrslit Meistaradeildar Evrópu á síðustu leiktíð.

Simeone er mjög varnarsinnaður þjálfari og hikar ekki við að leggja rútunni ef svo ber undir. Hann hefur hins vegar alltaf stýrt „minna“ liðinu og þurft að spila spila skynsamlega úr þeim spilum sem hann hefur haft á hendi og gert það vel. Hann hefur nú þegar sýnt fram á snilli sína á leikmannamarkaðnum en menn eins og Miranda, David Villa, Arda Turan og Gabi eru allt leikmenn sem Simeone fékk til félagsins.

Simeone myndi klárlega hrista vel upp í varnarleik Liverpool en hann hefur sýnt það og sannað að hann er stjóri sem getur náð árangri með mjög takmarkað fjármagn á milli handanna. Spennandi kostur fyrir Liverpool.

Lopetgui
Julen Lopetegui

Lopetegui er líklega minnst þekkta nafnið á listanum og vissu fáir hver hann var áður en hann rassskellti Þýskalandsmeistara Bayern Munich á miðvikudaginn síðasta í Meistaradeild Evrópu. Sigur Porto var ekkert annað en taktísk snilld hjá Lopetegui.

Lopetegui er spænskur markmaður sem lék m.a með Real Madrid og Barcelona á sínum leikmannaferli. Hann spilaði með „96′ árgangnum“ hjá Barcelona en margir af færustu knattspyrnustjórum Evrópu í dag léku með liðinu árið 1996. Þar ber hæst menn eins og Luis Enrique, Pep Guardiola og Laurent Blanc svo einhverjir séu nefndir.

Stjórinn tók við liði Porto fyrir þetta tímabil og hefur aðeins tapað þremur af 45 leikjum sínum á tímabilinu. Hann fékk menn eins og Yacine Brahimi, Bruno Martins Indi og Cacemiro til félagsins í fyrrasumar en þeir áttu allir frábæran leik gegn Bayern á dögunum en Cacemiro og Brahimi komu báðir til félagsins á frjálsri sölu.

Stjórinn er vissulega óskrifað blað þegar kemur að því að lyfta bikurum en Brendan Rodgers er það líka. Lopetegui kom Porto þó í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar með því að eyða 6,1 milljón punda, eitthvað sem Brendan Rodgers tókst ekki að gera með 215 milljónir punda.

Koeman
Ronald Koeman

Koeman er stjóri sem að ég hef hrifist mikið af í vetur og það verður að teljast óhætt að segja að hann hafi nú þegar sannað sig í deild þeirra bestu en hann er stjóri sem leggur mikla áherslu á varnarleikinn hjá sér.

Koeman hefur gert magnaða hluti með lið Southampton þrátt fyrir brotthvarf lykilmanna. Ég segi lykilmenn því mennirnir sem félagið missti í sumar voru þeir leikmenn sem héldu liðinu meira og minna á floti í fyrra þótt þeir hafi nánast allir valdið vonbrigðum í ár með sínum nýju félögum.

Koeman tók við Southampton þann 16. júní og seldi leikmenn fyrir 88 milljónir punda. Hann keypti hins vegar leikmenn fyrir 56 milljónir punda en þar ber hæst að nefna menn eins og Graziano Pelle, Dusan Tadic og Shane Long. Þá tókst honum að púsla saman nýju liði á tveimur mánuðum sem situr í dag í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, stigi frá Evrópusæti og Liverpool.


desktop