Draumur okkar varð að veruleika – Pistill frá Frakklandi

 Hrafnkell Freyr Ágústsson skrifar frá Annecy

Einhver veruleikafirrtur einstaklingur hefði getað sagt við mig fyrir fimm árum að Ísland-England myndu einn daginn spila í 16-liða úrslitum á stórmóti, ég hefði bara hlegið og skipt um umræðuefni strax.

Núna sitja mjög margir sveittir heima á Íslandi í röðinni á Uefa.com að biðja til guðs að þeir fái miða, skiljanlega. Við elskum öll enska boltann fyrir utan nokkra fýlupúka sem segja að þar sé spilaður svo leiðinlegur bolti og sá spænski sé miklu skemmtilegri, það er kjaftæði.

Heimir Hallgrímssson sagði skemmtilega setningu á blaðamannafundinum fyrir leik í fyrradag þegar menn voru að velta fyrir sér möguleikunum að mæta Englendingum “Þeir eru sennilega eina lið mótsins sem við þurfum ekki að leikgreina leikmannalega séð því við höfum allir horft á þá svo oft spila í sjónvarpinu.“

Enska liðið í þessu móti er kannski ekki það besta sem ég hef séð en aftur á móti eru þeir klárlega það skemmtilegasta, léttleikandi með marga unga og ferska leikmenn sem geta gert hluti upp á eigin spítur.

Ég reikna með að löngu boltarnir okkar fram á Kolbein og Jón Daða þegar við erum undir pressu muni ekki virka jafn vel og í riðlinum. Þeir hafa jú tvo tæplega tveggja metra turna í Cahill og Smalling sem eru ágætir í loftinu.

Kantmennirnir okkar munu sennilega hlaupa heilt Reykjavíkurmaraþon í leiknum þar sem Kyle Walker og Danny Rose hata ekkert utan á hlaupin og eru einnig í fínu formi. Ef ég þekki Jóa og Birki rétt þá græja þeir það samt mjög auðveldlega.

Ég er svakalega spenntur fyrir að sjá Aron Einar og Gylfa gegn miðju Englendinga, Ég reikna með að Aron mæti þokkalega peppaður og verði aðeins fastari fyrir en áður. Gylfi hefur gert þessum gaurum lífið leitt í leikjum á Englandi og mun klárlega gera það í þessum leik.

Englendingar eru eins og vanalega undir mjög mikilli pressu og mun það klárlega vera eitthvað sem þurfum að nýta okkur enda alveg pressulausir og getum leyft okkur að taka sjénsa sem við tókum skiljanlega ekki í riðlinum.

Ein af mínum uppáhalds vefsíðum yr.no segir mér að það verði 25 gráðu hiti, heiðskýrt og 0 metrar á sekúndu. ÚFF, þvílíka veislan sem það verður.

Þessi kvöldstund verður einstök, við getum vel unnið þetta Enska lið, þeir eru ekkert mikið betri en það Austuríska að mínu mati og til dæmis illa lélegir í vítaspyrnukeppnum en fyrst og fremst verður þetta spurning um að njóta mómentsins og sjá hvert það tekur okkur.


desktop