Ekki vera töffari á lyklaborðinu – Mættu á völlinn

Hörður Snævar Jónsson skrifar:

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þeim aðilum sem hafa hvað hæst á veraldarvefnum tjá sig um knattspyrnu, aðsókn og stuðning landsliða undafarna mánuði.

Þessi hópu var sérstaklega hávær í kringum EM í sumar þar sem karlalandsliðinu gekk svo vel. Þar var krafan að stelpurnar myndu fá sama stuðning og sömu umfjöllun.

Áköll um að kvennalandsliðið myndi fá sama stuðning kom fram og fyrir þeim stóð oft á tíðum fólk sem alla jafna lætur allt tengt knattspyrnu eiga sig.

Þetta fólk berst hinsvegar fyrir jafnrétti sem er hið besta mál, flestir ef ekki allir vilja jafnrétti í heiminum, þar á kyn, trú, litarhaft þitt eða kynhneigð ekki að skipta máli.

Framundan eru tveir af stærri leikjum kvennalandsliðsins í langan tíma á heimavelli og stelpurnar stefna á að fylla Laugardalsvöllinn.

Með jafntefli gegn Slóveníu á Laugardalsvelli klukkan 18:45 á morgun tryggir liðið sig sæti á EM í Hollandi næsta sumar.

Kvennalandsliðið hefur sett upp flugeldasýningar í hverjum einasta leik í þessari undankeppni, skoraði heilan helling af mörkum og ekki fengið á sig eitt einasta mark.

Það er því kjörið tækifæri fyrir alla þá sem hafa haft sig í frammi og barist fyrir jafnrétti og jöfnum stuðningi við landsliðin að mæta á Laugardalsvöll á morgun. Stelpurnar eiga það skilið.

Ekki vera töffari á bakvið lyklaborðið, mættu á völlinn!


desktop