Eru Íslendingar klárir í Rússland 2018?

Bjarni Helgason skrifar:

Ísland vann í gærdag afar mikilvægan 2-1 sigur á Kosóvó í undankeppni HM.

Það voru þeir Björn Bergmann Sigurðarson og Gylfi Þór Sigurðsson sem skoruðu mörk Íslands í leiknum en liðið er nú í öðru sæti I-riðils með 10 stig.

Króatar eru á toppnum með 13 stig og mun betri markatölu en við Íslendingar en Úkraína og Tyrkland eru í þriðja og fjórða sætinu með 8 stig.

Þann 11. júní næstkomandi leikur Ísland gríðarlega mikilvægan leik við Króata í Laugardalnum en vinni liðið þann leik myndi það setja okkur í algjöra lykilstöðu í riðlinum.

Þegar riðillinn er hálfnaður eigum við heimaleikina okkar eftir gegn Úkraínu, Kosóvó og Króatíu eins og áður sagði.

Undirritaður telur að Kosóvó eigi eftir að stríða sínum andstæðingum á heimavelli sínum enda hefur liðið vaxið mikið á því eina ári sem það hefur verið til.

Leikurinn í gær var ekkert til þess að hrópa húrra fyrir en engu að síður tók íslenska liðið þrjú stig á afar erfiðum útivelli, þrátt fyrir slaka spilamennsku í síðari hálfleiknum.

Eins og leikmenn liðsins bentu á eftir leikinn þá þarf þetta ekki alltaf að vera fallegt og reynslan í liðinu er orðin það mikil að við erum farnir að loka leikjum sem við lokuðum ekki fyrir nokkrum árum.

Það sem gerir sigurinn okkar ennþá stærri er sú staðreynd að við vorum án margra lykilmanna sem hafa spilað gríðarlega stórt hlutverk í sóknarleik liðsins, undanfarin ár.

Þeir leikmenn sem komu inn gerðu vel og þá hafa miðverðir liðsins ekki átt fast sæti í sínum félagsliðum á þessari leiktíð.

Eftir að hafa fylgt liðinu eftir í síðustu tveimur útileikjum liðsins þá tel ég að íslenskir stuðningsmenn geti verið bjartsýnir fyrir komandi tímum.

Fari svo að Ísland klári Króata og Úkraínu heima þá er fulla ástæð til þess að byrja plana næstu ferð til Rússlands árið 2018.


desktop