Eru stuðningsmenn Liverpool að deyja út?

Skoðun pistlahöfundar endurspeglar ekki endilega skoðun 433.is.

Bjarni Helgason skrifar:

Undirritaður skellti sér á leik Liverpool og Everton í ensku úrvalsdeildinni um helgina en leiknum lauk með 3-1 sigri Liverpool.

Ég hef stutt Liverpool frá því að ég man eftir mér og þetta var minn fimmtándi leikur á Anfield. Ég var duglegur að kíkja til Englands á mínum yngri árum en það hefur aðeins dregið úr ferðunum þangað í seinni tíð.

Ég sá síðasta heimaleik Brendan Rodgers með liðið árið 2015 þegar að Liverpool vann Aston Villa, 3-2 en síðan fór Rodgers með liðið á Goodison Park, gerði jafntefli og var rekinn.

Helginni var eytt í Liverpool, líkt og árið 2005 þegar að ég sá leik Liverpool og Chelsea en stemningin árið 2017 var aðeins öðruvísi en árið 2005 þegar að Anfield bókstaflega nötraði allan leikinn.

KOP stendur að vísu alltaf fyrir sínu en ég varð sjálfur fyrir talsverðum vonbrigðum með minn hluta stúkunnar, sér í lagi fólkið sem sat fyrir aftan mig og tók upp allan leikinn á selfie stöngina sína, en það var nánast það eina sem það gerði í stúkunni því þau nenntu varla að fagna þegar Liverpool skoraði.

Eftir leikinn tók ég leigubíl niður á bryggju en leigubílstjórinn sem skutlaði mér var grjótharður stuðningsmaður Liverpool. Hann mætti á alla leiki liðsins í gamla daga en í dag kemur hann ekki nálægt Anfield.

Hann fer á alla útileiki liðsins en ástæðan fyrir því að hann fer ekki lengur á heimaleikina er hækkandi miðaverð og þung steming á Anfield eins og hann sjálfur orðaði það.

„Anfield is a tourist place now, people should not be taking photos of Jose Mourinho, they should be throwing their f***** phones at him!“ sagði hann við mig sem þýðir bókstaflega, Anfield er ferðamannastaður í dag, stuðningsmenn eiga ekki að taka myndir af Jose Mourinho á símann sinn, þeir eiga að grýta fjandans símunum í hann.

Park er lítill bar fyrir utan Anfield þar sem að KOP endinn hittist alltaf á, þremur tímum fyrir leik en þegar að ég fór þarna inn um helgina hitti ég eingöngu Norðmenn. Menn voru ekki syngja og peppa sig upp fyrir leikinn, heldur var staðurinn rólegur. Eitthvað sem ég hef aldrei séð á ævi minni.

Ég tók nokkra leigubíla í þessari ferð og sumir bílstjóranna voru stuðningsmenn Everton. Þeir töluðu líka um það hversu léleg stemningin á Anfield væru orðin og þeir vildu meina um 30% áhorfenda á leiknum væri harðkjarna stuðningsmenn á meðan allir þeir sem mættu á Goodison Park væru Everton until you die eins og þeir segja.

Það eina sem ég spyr mig að er að ef þessi þróun heldur áfram, á Anfield t.d verða þá engir alvöru stuðningsmenn eftir þarna til þess að styðja liðið. Það sem gerir leikina fyrir mig oft á tíðum er að heyra stemninguna á Anfield þegar að ég horfi á leikinn í sjónvarpinu hérna heima.

Peningarnir eru svo sannarlega að eyðileggja enska boltann og það er ein ömurlegasta þróun sem stuðningsmaður getur horft upp á.


desktop