HVAÐA KJAFTÆÐI ER Í GANGI HÉRNA? – Pistill frá Nice

Hrafnkell Freyr Ágústsson skrifar frá Nice

Þegar Englendingar komast yfir strax á fjórðu mínútu viðurkenni ég að ég hugsaði “nei hver fjandinn, ekki eru þeir að fara að labba yfir okkur hérna?“

Ég skeit, ég viðurkenni það fúslega. Þessir gaurar í þessu liði eru svo ógeðslega ruglaðir að við markið efldust þeir bara. Tveimur mínútum síðar fengum við eitt gott fótboltainnkast og Aron fleygir því hundrað metra, Kári flikkar því bara og Raggi er mættur á fjær og hamrar hann inn, BOOM 1-1.

Um miðbik fyrri hálfleiks áttum við klárlega okkar besta spil í mótinu. Við sundurspiluðum þá gjörsamlega og á endanum fékk Kolbeinn Sigþórsson boltann rétt fyrir utan teig, lagði hann fyrir sig og bara setti hann fast í hornið, Joe Hart hafði einu sinni ekki orku í úlnliðunum til að verja skotið og hann er með eina sterkustu úlnliðina í þessum leik, það er þannig.

Við tók sirka sjötíu mínútna kafli þar sem Englendingar fengu ekki eitt alvöru færi, það eitt og sér er sturlun. Enska liðið er með frábæra knattspyrnumenn sem spila allir í bestu deild í heimi, Íslenska liðið setti þá bara alla inn í gamlan skítugan pappakassa og lét Ragnar Heimir Gunnarsson starfsmann DHL senda hann með næstu sendingu beint til Englands.

Tæklingin hans Ragga Sig á sjötugustu mínútu var “HANDS DOWN“ besta tækling mótsins, beint úr Árbænum. Ásgeir Börkur fagnaði henni pottþétt af grimmri ástríðu eins og marki heima hjá sér, hún var það góð.

Stuðningurinn í kvöld, eruð þið að grínast í mér eða? Það heyrðist miklu meira í ykkur 3000 krúttlegu Íslendingunum heldur en öllum þessum blessuðu Bretum sem voru að staðfesta tveggja til þriggja marka sigur í dag. Þeir áttu ekki breik og eina skiptið sem þeir yfirgnæfðu okkur var þegar þeir púuðu á enska liðið, það er geggjað.

Þetta var mesta bilun sem ég hef upplifað á lífi mínu, Takk fyrir mig.

Sjáumst í París.


desktop