Ronaldo lenti á Íslenskum múrvegg – Pistill frá Frakklandi

Hrafnkell Freyr Ágústsson skrifar frá Saint-Etienne.

Kvöldið í kvöld var ólýsanlegt, á fyrstu tíu mínútum leiksins gat ég varla talað né skrifað því ég skalf svo mikið. Ég bullaði einnig mjög mikið á meðan leik stóð og þegar við skoruðum í upphafi síðari hálfleiks vissi ég varla lengur hvað ég héti.

Þessi stuðningur úr stúkunni var hreint út sagt rosalegur, við vorum svona sex sinnum færri en stuðningsmenn Portúgala en samt heyrðist sirka tíu sinnum meira í okkur. Gæsahúðin sem ég fékk þegar hornin sungu á milli sín “ÁFRAM ÍSLAND“ í byrjun leiks var “hands down“ langmesta gæsahúð sem ég hef fengið á lífi mínu.

Þjálfari N.E.C Nejmegen horfði líklega á leikinn skellihlægjandi og setti Hannes í byrjunarliðið fyrir fyrsta leik næsta tímabils í hálfleik. Mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum og  þessi varsla hjá honum um miðbik fyrri hálfleiks var algjört rugl og mun sennilega vera ein af vörslum mótsins.

Kolbeinn og Jón Daði gerðu nákvæmlega allt rétt. Kolbeinn vann svona sirka tuttugu skallabolta og var það svakalegt að sjá Carvalho og Pepe eiga ekki breik í hann í loftinu. Jón daði hljóp endalaust og skilaði öllum sendingum mjög vel frá sér.

Við vörðumst frábærlega sem lið, alveg frá fremstu mönnum til Hannesar og gerðum það að verkum að einn af tveimur bestu leikmönnum heims fékk varla færi og sást mjög lítið, þið vitið nákvæmlega hvern ég er að tala um.

Það gladdi mig einnig rosalega mikið þegar Portúgalar voru að láta sig detta að ALLTAF voru tveir til þrír Íslendingar mættir að láta þá heyra það, það pirraði þá augljóslega mjög mikið að gaurar sem þeir vissu varla hverjir voru fyrir mánuði væru að segja þeim til syndanna.

Takk fyrir kvöldið og sjáumst á Laugardaginn.


desktop