Stillum væntingum okkar í hóf og njótum leiksins

Bjarni Helgason skrifar frá Zagreb:

Íslenska landsliðið mætir Króatíu í undankeppni HM í Zagreb í kvöld klukkan 18 að staðartíma en bæði lið eru með sjö stig á toppi I-riðils.

Króatar eru með töluvert betri markatölu en við Íslendingar en þeir eru með 7 mörk í plús á meðan Ísland er með 3 mörk í plús eftir leiki gegn Úkraínu, Finnum og Tyrkjum.

Allir sem hafa fylgst með fótbolta í gegnum tíðina vita hversu frábærum árangri strákarnir í landsliðinu hafa náð, undanfarin ár.

Eins og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari benti á í gærdag þá var leikurinn við Króata árið 2013 ákveðinn vendipunktur fyrir landsliðið sem hefur ekki horft til baka frá þeirri viðureign.

Það er hárrétt hjá Heimi því ef við skoðum árangur liðsins í undankeppni EM sem hófst árið 2014 þá vann liðið sex leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði aðeins tveimur leikjum, gegn Tyrkjum og Tékkum, úti.

Á EM í Frakklandi tapaði liðið aðeins einum leik en það var í 8-liða úrslitum keppninnar gegn heimamönnum í Frökkum en á mótinu gerði liðið tvö jafntefli og vann tvo leiki.

Þessi undankeppni hefur svo farið afar vel af stað en liðið er ennþá taplaust eftir fyrstu þrjá leikina og situr á toppi riðilsins eins og áður sagði ásamt Króötum.

Tíu sigar, fjögur jafntefli og einungis þrjú töp í síðustu 17 leikjum íslenska landsliðsins hefur farið aðeins of vel í stuðningsmenn Íslands sem hafa fylgt liðinu eins og skugginn, undanfarin ár en margir vilja meina að Íslendingar séu bestu stuðningsmenn í heimi.

Við erum orðin ansi góðu vön verður að segjast enda nánast undantekning að landsliðið okkar tapi leik en í kvöld mætir liðið einu öflugasta landsliði í heimi.

Króatar voru afar óheppnir á EM í Frakklandi í sumar en þeir voru það lið sem spilaði lang best í riðlakeppninni að mínu mati. Þeir voru óheppnir að detta út á móti Portúgal sem bókstaflega lagði rútunni á móti þeim í 16-liða úrslitunum en Ricardo Quaresma skoraði sigurmark leiksins þegar þrjár mínútur voru eftir af framlengingunni.

Króatar hefðu eflaust getað farið alla leið og unnið mótið en eins og margoft hefur komið fram hafa þeir á að skipa bestu miðju í heimi með þá Modric (Real Madrid), Rakitic (Barcelona) og Kovacic (Real Madrid) á miðsvæðinu.

Að ná í stig gegn einu besta landsliði í heimi, á þeirra heimavelli yrðu frábær úrslit fyrir landsliðið okkar. Við skulum því ekki sitja heima í sófanum og pirra okkur á því hversu illa okkur gæti gengið að halda boltanum heldur njóta þess að horfa á þetta frábæra landsliðið sem við eigum.

Áfram Ísland og góða skemmtun!


desktop