Stjörnur sem urðu að stórstjörnum á einni nóttu

Skoðun pistlahöfundar endurspeglar ekki endilega skoðun 433.is.

Hörður Snævar Jónsson skrifar frá Annecy:

„Ef við vinnum England, þá mun líf leikmannanna breytast og okkar allra. Íslenskur fótbolti mun gengishækka og mun breytast hvernig talað verður um hann. Það verður öðruvísi í framtíðinni,“ sagði Heimir Hallgrímsson þjálfari Íslands fyrir leikinn við England.

Aldrei hafa nein orð reynst jafn sönn og þau sem Heimir sagði.

Strákarnir okkar voru stjörnur fyrir leikinn við England en í dag eru þeir orðnir að stórstjörnum.

Þegar leikmenn mættu á æfingu í dag voru 100 fjölmiðlamenn á svæðinu, hingað til hafa þeir verið í kringum 40. Allir stærstu fjölmiðlar heims vilja fá sinn skammt af leikmönnum Íslands núna.

Allir þeir sem komu við sögu í leiknum gegn Englandi munu lifa öðruvísi lífi eftir sigurinn á þeim. Ljóst er að áreitið á þá verður miklu meira en áður.

Fróðlegt verður að sjá hvernig leikmenn takast á við það en ljóst er að frægðin er hættulegt verkfæri og misstígi leikmenn sig er ljóst að hamrað verður á þeim.

Leikmenn Íslands hafa hingað til náð að höndla aukna frægð og aukið áreiti vel, það er því ekki hægt að ætla annað en að svo verði áfram.

Sigurinn á Englandi hefur líka opnað dyr fyrir leikmenn, öll stærstu lið Evrópu vita núna hver Ragnar Sigurðsson er. Ljóst er að margir leikmenn gætu skipt um lið eftir mót.

Þeir munu fá betur borgað, fá auglýsinga samninga sem þeir voru ekki að fá fyrir mót og fleira í þeim dúr.

Þjálfarar á Íslandi gætu svo fengið tilboð að utan, af hverju ætti ekki eitthvað stæra landslið eða lið í Evrópu að reyna að fá Heimir Hallgrímsson til að starfa fyrir sig?

Það hefur verið magnað að vera með liðinu hér í Frakklandi frá 7. júní og ævintýrið er bara rétt að byrja.


desktop