Til hamingju með klúður aldarinnar KSÍ

Bjarni Helgason skrifar:

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ greindi frá því í gærdag að hann hefði hafnaði tilboði EA Sports um að Ísland yrði með í nýjasta tölvuleik fyrirtækisins, Fifa 17.

Formaðurinn horfði á tilboðið frá EA Sports og hugsaði með sér að þarna væri eflaust frábært tækifæri fyrir KSÍ til þess að hala inn nokkrum kúlum, sér í lagi þar sem að EA er einn stærsti tölvuleikjaframleiðandi í heimi.

Til þess að fræða formanninn og aðra sem ekki þekkja til um tölvuleikinn þá bendi ég á nokkrar staðreyndir hérna um leikinn sjálfan:

– Hann var fyrst gefin út árið 1993
– Leikurinn er gefinn út á 18 tungumálum með liðum frá 51 landi
– Leikurinn er gefinn út um allan heim
– Fifa er vinsælasti íþróttaleikur allra tíma
– Fifa er á topp tíu listanum yfir mest seldu tölvuleikjaseríu allra tíma
– Fifa hefur selst í meira en 100 milljónum eintaka
– Sala tölvuleiksins hefur alltaf aukist milli ára (mest 23%) sem þýðir að vinsældir leiksins fara bara vaxandi

Til þess að leiðrétta þann misskilning sem kom fram í viðtali við Geir á Nútímanum um að KSÍ hefði verið boðin sirka ein milljón fyrir þáttökuna er þvæla. KSÍ bauðst 15.500 evrur fyrir réttinn en ef gengi dagsins er skoðað erum við að tala um rúmlega tvær milljónir í tekjur.

Þegar Geir talar um það að gefa upp réttinn að landsliðinu þá hljómar það eins og KSÍ sé að færa miklar fórnir. Það er ekki þannig því EA Sports vill einfaldlega fá nöfn leikmanna landsliðsins, logo KSÍ og landsliðsbúninginn sem Errea framleiðir. Eini fórnarkostnaður KSÍ í þessu samhengi er eflaust smá auka vinna á starfsmenn KSÍ sem ættu nú að geta gefið sér tíma til að nýta sér þetta frábæra tækifæri. Til þess að undirstrika eigin hroka og greindarmisbrest mætir Geir svo í viðtal og talar um Fifa leikinn sem spil sem að aðeins ungir krakkar á Íslandi spila.

Árangur íslenska landsliðsins á EM vakti heimsathygli svo ekki sé meira sagt. Árangurinn er besta landkynning sem Ísland hefur fengið og það er ekki hægt að deila um þá staðreynd. Bókaútgefendur í landinu sem finnst alltof mikil umræða fara í íþróttir tóku allir undir það að sala á íslenskum bókmenntum hefði aukist til muna eftir árangur landsliðsins.

Ég gæti skrifað heilan pistil um það hversu góða landkynningu við höfum fengið síðan í sumar en til þess að ítreka mál mitt en frekar bauðst Gunnari Nelson, UFC bardagakappa að vera með í UFC 2, tölvuleik sem EA Sports gefur einnig út. Hann sagði að sjálfsögðu já, þótt hann fengi ekki krónu fyrir það að vera í leiknum enda frábær auglýsing fyrir Nelson.

Auglýsingagildi Íslands í tölvuleiknum Fifa verður ekki metið til fjár og það að KSÍ hafi verið boðin fjárhæð fyrir að vera með ætti í raun bara að vera bónus. Þessi ákvörðun hjá Geir um að hafna tilboði EA Sports sýnir einfaldlega fram á algjöra vanhæfni hjá formanninum sem og öllu sambandinu, svo ekki sé nú talað um dómgreindarleysið þegar kemur að markaðsmálum.

„Halldorsson with a long ball up the field. Sigurdsson takes the ball down and passes it to Gudmundsson. Gudmundsson with a great cross to Sightorsson who heads the ball past Joe Hart! What a goal by Kolbeinn Sigthorsson!“

Vil nota tækifærið og þakka Geir og KSÍ fyrir markaðsklúður aldarinnar, sem og að eyðileggja þetta fyrir mér, Íslendingum og þeim 7 milljónum, í það minnsta sem er reiknað með að muni kaupa Fifa 17. Þetta hefði vissulega verið geggjað, og auðvitað geggjuð auglýsing fyrir strákana okkar í lýsingu goðsagnanna Martin Tyler og Alan Smith.


desktop