Svíar orðlausir yfir framkomu De Rossi eftir umspilsleikinn fræga

Ítalía tók á móti Svíum í umspili um laust sæti á HM í Rússlandi á mánudaginn síðasta en leiknum lauk með markalausu jafntefli.

Fyrri leik liðanna lauk með 1-0 sigri Svía og fara þeir því til Rússlands en Ítalir eru úr leik og verða ekki með á HM í fyrsta sinn síðan 1958.

Daniele De Rossi, miðjumaður Roma var ekki með í leiknum vegna meiðsla en hann kom og spjallaði við leikmenn Svía eftir leikinn og óskaði þeim m.a til hamingju og baðst afsökunar á stuðningsmönnum ítalska liðsins.

„Hann kom til okkar í liðsrútuna og óskaði okkur til hamingju. Hann baðst líka afsökunar á hegðun sumra leikmanna liðsins eftir leikinn í Stokkhólmi og hann baðst líka afsökunar fyrir hönd stuðningsmannanna sem bauluðu á þjóðsönginn okkar,“ sagði Pontus Jansson, leikmaður Svía.

„Við vorum allir í nettu sjokki í rútunni og trúðum þessu varla. Þetta var mjög fallegt augnablik, þvílíkur fagmaður þessi gæi.“

Þjálfari Svía, Janne Andersson var ekki í rútunni þegar atvikið átti sér stað en hrósaði Ítalanum mikið.

„Svona eiga íþróttirnar að vera. Þú getur barist fyrir lífi þínu inná vellinum en eftir leik þá takast menn í hendur og skilja í góðu,“ sagði þjálfarinn að lokum.


desktop